143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Skýrsla sú sem við fengum í hendur í gær er mikil að vöxtum og ég viðurkenni einlæglega að ég hef ekki lesið hana alla. Ég hef reynt að nota þann stutta tíma sem gafst til þess að fara yfir helstu atriði og segja má að það sé bæði gott og slæmt þegar stuttur tími gefst til þess að fara yfir svona skýrslur. Mér finnst að umræðan verði skarpari og ekki einsleit ef það dregst ekki mjög lengi að hefja umræðu um svona skýrslur, ef við látum til dæmis fjölmiðlum ekki eftir að túlka niðurstöðurnar án þess að við gerum grein fyrir skoðunum okkar á þeim, hverjar sem þær eru.

Þessi skýrsla er mjög hófstillt og vel unnin. Kannski þykir manni hún enn betri fyrir vikið og svo miklu betur unnin en sú ævintýralega vonda skýrsla sem við ræddum hér um daginn, skýrslan um Íbúðalánasjóð. Eitt af stærstu atriðunum í þessari skýrslu hér er kannski að þeir sem koma við sögu hafa greinilega fengið andmælarétt. Það er mikil framför frá því sem var í skýrslu Íbúðalánasjóðs þar sem menn, stofnanir og fyrirtæki voru eiginlega þakin auri en fengu ekki að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta ber að þakka.

Kynning skýrslunnar var vönduð og niðurstöður hennar eru varfærnar. Um leið bregður hún mjög góðu ljósi, að manni finnst, á þá sögu sem hér er til meðferðar. Ég verð að segja að í sjálfu sér er ég ögn hryggur yfir því að segja má að við séum að lesa í þessari skýrslu um endalok þeirrar gömlu sögu sem sparisjóðir áttu á Íslandi, þ.e. skipbrot allnokkurra þessara sjóða.

Það verður gríðarlega mikil breyting árið 1993 þegar breyting verður á starfsemi sparisjóðanna í kjölfarið á EES-samningunum og síðan þróuðust mál með þeim hætti að allt í einu voru stofnfjárbréf orðin ávísun á það að þeir sem réðu yfir slíkum bréfum gátu hagnast umtalsvert með því að selja þau. Fjársterkir aðilar sáust ekki fyrir við að reyna að sölsa undir sig sparisjóði, sem oft og tíðum voru þokkalega settir, til að geta valsað um sjóði þeirra eins og þeim datt í hug.

Eins góð og þessi skýrsla er út af fyrir sig bætir hún kannski ekkert ofboðslega miklu við þá þekkingu sem þegar var fyrir hendi um þetta mál. Það var þegar búið að gera grein fyrir örlögum Sparisjóðs Keflavíkur í skýrslu frá KPMG og það var þegar búið að gera grein fyrir sögu SPRON í heilli bók þannig að í sjálfu sér bætir þessi stóra skýrsla ekki rosalega miklu við. Engu að síður, og ég tek undir með síðasta ræðumanni, er gríðarlega mikla vitneskju að finna í þessari skýrslu um sögu sparisjóðanna og þróun.

Það er aftur á móti sorgarsaga hvernig áhættusækni sótti í sig veðrið í þessum sjóðum, sérstaklega hvernig innra eftirlit þeirra brást — nú er ég að tala um þá stærstu — endurskoðun var áfátt og útlánastarfsemin ekki í samræmi við góðar venjur. Menn voru að lána skyldum aðilum og tengdum, stjórnarmönnum, starfsmönnum og skylduliði og síðan lánuðu menn stórar upphæðir til gríðarlega áhættusækinna fyrirtækja. Það er svo sérkapítuli út af fyrir sig að Sparisjóðabankinn, sem var komið á fót, lánaði mikið til útlanda, t.d. til Austur-Evrópu, þannig að menn sáust ekki fyrir. Í sjálfu sér má segja, af því að í „denn“ var talað um að í sparisjóðunum væri til fé án hirðis, sem vissulega er rétt, að svo hafi féhirðar komið og hirt allt féð. Þá var það ekki lengur án hirðis.

Er hægt að læra af þessari skýrslu? Já, alveg heilan helling. Voru gerð mistök? Já, alveg örugglega, bæði hvað varðar eftirlit og einstakar aðgerðir. Það voru mistök að setja 30 milljarða kr. í Sparisjóð Keflavíkur, menn horfa ekkert fram hjá því þó að það hafi verið gert í þeirri góðu trú að Sparisjóður Keflavíkur gæti orðið flaggskip sparisjóða í landinu til lengri tíma. Það var aldeilis ekki góð ráðstöfun.

Í kynningu skýrsluhöfunda kemur fram að 21 mál hafi verið sent til athugunar hjá rannsakendum, svo sem sérstökum saksóknara og/eða ríkissaksóknara, og að þetta hafi verið gert í gærmorgun, ef ég skil rétt. Ég verð að viðurkenna að ég varð pínu hugsi yfir þessu, líka vegna þess að það kom fram í sömu kynningu að 10 af þessu 21 máli væru þegar til rannsóknar með einhverjum hætti. Ég spyr mig: Til hvers voru þau þá send aftur? Það kom líka fram í kynningunni, ef ég hef ekki misskilið, að einhver þessara mála kynnu að vera fyrnd. Það er umhugsunarefni. Nú er þessi skýrsla búin að vera í vinnslu í tvö og hálft ár. Ef menn hafa komist að einhverju sem þeir töldu saknæmt og ekki tilkynnt það fyrr en í gærmorgun finnst mér það ámælisvert. Ég finn líka að því að það er hvergi að finna hvaða mál þetta eru. Fyrst búið er að senda þau rannsakendum til meðferðar sé ég ekki af hverju ekki mátti upplýsa hvaða mál þetta væru. Um hvað snúast þau? Það felst engin sakbending eða sakfelling í því, þetta er bara eins og að tilkynna hugsanlegt eða meint brot sem hver og einn telur sig verða varan við og tilkynnir þar til bærum yfirvöldum. Síðan er það yfirvaldanna og dómstólanna að kveða upp úr um hvort ábendingin sé rétt og eigi við rök að styðjast eða brjóti í bága við lög. Það er allt annað mál. Ég get fundið svolítið að þessu.

Það má vissulega læra af þessari skýrslu. Auðvitað eigum við að reyna okkar besta til þess og við eigum að taka það alvarlega þegar við fáum svona skýrslur séu þær á annað borð almennilega unnar og hægt að nota þær sem vegvísi inn í framtíðina. Ég tel að þessi skýrsla uppfylli með sínum hófstillta málflutningi og góðu ábendingum það skilyrði að geta orðið vegvísir inn í framtíðina.

Það er hins vegar annað í þessu sem mér finnst alvarleg tíðindi út af fyrir sig, það hve gríðarlega mikið fé tapaðist við þetta fall sparisjóðanna. Eignir þeirra voru rétt tæpir 12.300 milljarðar árið 2007 en 2.900 milljarðar í árslok 2011. Það töpuðust sem sagt tæpir 10 þús. milljarðar í þessu hruni þeirra. Nú tek ég aftur dæmið af Íbúðalánasjóði sem við ræddum hérna um daginn, það kemur fram í skýrslunni að heildartap ríkissjóðs af hruni sparisjóðanna sé í fyrsta lagi þessir 33 milljarðar sem fóru í Sparisjóð Keflavíkur, í öðru lagi 215 milljarðar sem eru væntanlega töpuð krafa í Sparisjóðabankann og á bls. 44 segir, með leyfi forseta:

„… á árinu 2013 voru afskrifaðar 213 milljónir kr. af stofnfé ríkissjóðs í sparisjóðunum. […] Enn ríkir óvissa um hvort og hversu há fjárhæð muni falla til vegna uppgjörs við slitastjórn Sparisjóðabankans. Seðlabankinn lýsti 215 milljarða kr. kröfu í þrotabú bankans og hefur lítill hluti krafnanna verið samþykktur.“

Þetta er gríðarlega alvarlegt mál.

Ég verð líka að segja að þrátt fyrir að skýrslan sé vel gerð þykir mér kostnaðurinn við hana aldeilis óheyrilegur. Ég verð að segja það sem forsætisnefndarmaður á Alþingi að ég held að þær þrjár rannsóknarskýrslur á vegum Alþingis sem þegar er búið að gera hafi kennt okkur það líka að við þurfum að gera þær kröfur til okkar sjálfra að þegar við biðjum um svona skýrslu sé efnið almennilega afmarkað, að nefndarmenn telji sig ekki annaðhvort knúna til þess eða þeir hafi heimildir til þess að eltast við og rekja upp hvert málið á fætur öðru vegna þess að verkefnið er ekki nákvæmlega afmarkað. Auðvitað er þessu fólki vorkunn. Það vill gera vel, ég skil það vel, en hjá okkur liggur sú ábyrgð að semja almennilegt erindisbréf fyrir þá sem veljast í þessar nefndir þannig að starfið verði markvisst og kostnaðurinn hlaupi ekki úr hófi fram.

Það er annað atriði líka sem auðvitað verður að liggja fyrir þegar ráðist er í aðgerðir eins og að skrifa skýrslur sem þessa. Í byrjun verður að liggja fyrir kostnaðaráætlun til að Alþingi geti gert upp við sig hvort það telji þess virði að láta gera svona skýrslur. Þá verðum við að meta kalt hvernig við tökum á því. Þetta er að mínu áliti einnig mikil áminning til okkar sem hér sitjum um að við vöndum vinnubrögðin. Með þessu er ég ekki að benda á þá sem unnu þetta verk. Ef verkið er ekki nógu vel afmarkað fer kostnaðurinn úr hófi fram.

Það er alveg greinilegt að kostnaðurinn við þessa skýrslu og drátturinn á afhendingu hennar er meðal annars til kominn vegna þess að menn gáðu að því að fólk fengi andmælarétt og fengi að koma fyrir nefndina. Ekki ætla ég að finna að því en ég segi líka að sparisjóðirnir, eins og þeir voru í sinni gömlu mynd, voru stofnanir sem huguðu vel að nærumhverfi sínu og veittu persónulega og góða þjónustu. Þrátt fyrir það sem stendur í þessari skýrslu um þær hrakfarir og þá erfiðleika sem sparisjóðirnir lentu í hef ég þá trú að sparisjóðir eigi aftur eftir að verða á Íslandi afl á bankamarkaði en samt ekki afl eins og þeir voru 2007 með allt of stórum efnahagsreikningi þar sem þeir lánuðu stórfyrirtækjum stóran hluta af fjármunum sínum og bjuggu til dótturfélög til að geta lánað enn þá meira, samanber Kistu og Existu. Það eru ekki svoleiðis sparisjóðir sem við viljum. Við viljum sparisjóði sem eru bakhjarl nærumhverfis síns, veita persónulega og góða þjónustu og skila ávinningi af starfsemi sinni í heimabyggð.

Vonandi renna upp þeir tímar að slíkar stofnanir eigi framtíð fyrir sér á Íslandi.