143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[14:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eitt mál í umfjöllun um sparisjóðaskýrsluna á fyrsta degi hefur öðru fremur varpað rýrð á sparisjóðina í heild, umfjöllun um að sparisjóðirnir hafi kostað þjóðarbúið allt að 200 milljarða, mest vegna Sparisjóðabankans.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar var nafni Sparisjóðabankans breytt í Icebank árið 2006 með útrás í huga. Þá var samþykktum Icebank breytt 18. september 2007 á þann veg að markmið hans væri ekki lengur að þjóna sparisjóðunum og að aðrir en sparisjóðirnir mættu eiga þann hlut. Í framhaldi af því komu nýir hluthafar sem eignuðust 20% hlut og fengu sæti í stjórn. Eftir þessar breytingar gat Sparisjóðabankinn tæpast talist hluti af sparisjóðunum né tap af hans völdum á ábyrgð sparisjóðanna.

Þá er þess einnig að geta að stór hluti af kröfu Seðlabankans á hendur Sparisjóðabankanum er vegna svonefndra ástarbréfa, þ.e. Sparisjóðabankinn og fleiri tóku lán hjá Seðlabankanum til að lána stóru bönkunum þremur. Málaferli eru í gangi um réttmæti þeirra krafna Seðlabankans vegna aðkomu hans og þekkingar á málinu.

Ég tel mikilvægt að við höldum þessum sjónarmiðum til haga vegna þess að þrátt fyrir vandaða skýrslu hafa margir stjórnmálamenn, einkum þeir sem aðhyllast frjálshyggju og hafa gert hana að leiðarljósi í lífi sínu, notað tækifærið og fundið sparisjóðakerfinu allt til foráttu. Ég hefði einmitt haldið að fall hinna stóru banka, fall kerfisins í heild sinni, hefði kennt okkur að við verðum að halda fast í þá stefnu, þau markmið og það hlutverk sem sparisjóðirnir gegndu svo áratugum skipti.

Á fyrstu blaðsíðum í 1. hefti þessarar ágætu skýrslu er rakið í stórum málum hvaða skref það voru öðrum fremur sem leiddu til falls sparisjóðanna. Það verður samt að geta þess og halda til haga að ekki féllu allir sparisjóðirnir. Það voru nefnilega til sparisjóðir sem héldu fast í hlutverk sitt, markmið og tilgang. Þeir sparisjóðir stóðust hrunið, hvorki meira né minna, og ég held að það verði að líta til þess að þarna er um meiri háttar afrek að ræða í ljósi þess hve umfangsmikið hrunið var og að allir helstu stóru viðskiptabankarnir féllu. Þess vegna segi ég: Lærdómurinn af þessari skýrslu verður að vera sá að við höldum í þau markmið og grunnsjónarmið sem lágu að baki sparisjóðakerfinu en förum ekki aftur í kerfi græðgisvæðingar.

Mikið hefur verið talað um hin félagslegu sjónarmið. Að sjálfsögðu þurfa þau að vera ofan á en það er þó annað markmið sem ég vil benda á, ábyrgð að baki öllum þeim ákvörðunum sem eru teknar hjá fjármálastofnunum. Það á ekki að taka ákvarðanir sem snúa eingöngu að því að hámarka hagnað eigenda kerfisins. Þar liggur sannleikurinn í þessu máli. Hér eru raktar á fyrstu blaðsíðunum á margan hátt í frekar stuttu máli þær atlögur sem voru gerðar að kerfinu með einum eða öðrum hætti, kannski einna helst árin 2002–2003.

Mig langar að lesa aðeins upp úr 2. kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um helstu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þróun sparisjóða hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum síðustu áratugina má segja að hafi verið í grundvallaratriðum sú að fyrst í stað voru starfsheimildir sparisjóða auknar, meðal annars til þess að geta mætt aukinni samkeppni og auknum kröfum til fjármálaþjónustu. Munurinn milli banka og sparisjóða fólst þá aðallega í eignarhaldi og samsetningu eigin fjár. Þannig voru sparisjóðir sjálfseignarstofnanir en bankar hlutafélög með það markmið að skila hluthöfum sínum arði. Bankar gátu aflað aukins eigin fjár á markaði með útgáfu nýs hlutafjár, auk þess sem atkvæðisréttur fylgdi eignarhlut í banka. Vegna samkeppni við bankana kviknuðu hugmyndir um að auðvelda þyrfti öflun eigin fjár á frjálsum markaði.“

Svo er rakið hvernig þessum reglum var breytt í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi og loks á Íslandi árið 2001.

„Eftir að sparisjóðum var heimilað að hlutafélagavæðast undir lok 20. aldar fækkaði þeim og vægi þeirra á fjármálamarkaði minnkaði. Margir sparisjóðir, sér í lagi hinir stærstu, breyttu rekstrarformi sínu í hlutafélög og glötuðu þar með einkennum sínum og sérstöðu gagnvart viðskiptabönkum, og sumir sameinuðust raunar bönkum í kjölfarið. Fækkun sparisjóða leiddi til þess að staða þeirra sem eftir lifðu versnaði þegar á heildina er litið. Sameiginlegar stofnanir sem tekið hafði langan tíma að byggja upp, ásamt þeim skyldum sem lagðar eru á fjármálafyrirtæki, urðu sparisjóðunum sem eftir stóðu þyngri klafi en áður.“

Við höfum tekið upp á Alþingi umræðu um það hvort hin ströngu samkeppnisskilyrði sem hafa verið sett á sparisjóðina hafi í rauninni unnið gegn því markmiði að halda úti ábyrgri fjármálaþjónustu hringinn í kringum landið.

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Ímynd sparisjóðanna var lengst af afar góð en það reyndist vandasamt að halda í þau miklu verðmæti sem í henni voru fólgin um leið og tekist var á við breyttar og æ þrengri aðstæður á markaði sem iðulega kölluðu á tilraunir til breytinga á starfsemi og jafnvel á eðli sparisjóðanna.“

Þarna held ég að skýrsluhöfundar hafi hitt naglann á höfuðið. Ímynd sparisjóðanna var góð vegna þess að þeir höfðu það helst að markmiði að halda vel utan um viðskiptavini sína en ekki færa eigendum eins mikinn arð og hugsast gat.

Á bls. 41 í 1. bindi þessarar skýrslu er fjallað um þær lagabreytingar sem höfðu mikil áhrif á eignarhald sparisjóðanna. Það er rakið frá breytingum á sparisjóðalögum árið 1985 en þó má segja að EES-reglur sem teknar voru upp hér árið 1993 með innleiðingu EES-samningsins hafi kannski einna helst gert það að verkum að hin neikvæða þróun hófst og hv. þm. Frosti Sigurjónsson rakti hana ágætlega í ræðu sinni áðan.

„Á árunum 2001–2004 voru gerðar tvær tilraunir til að breyta stærsta sparisjóðnum í hlutafélag. Þar urðu átök milli stofnfjáreigenda, starfsmanna og stjórnar og ýmsir markaðskraftar leystust úr læðingi.“

Ég man vel eftir þessum ágreiningi. Því miður hafði löggjafinn „ekki búið svo um hnútana að hindruð yrðu bein viðskipti með stofnfjárbréf einstaklinga í milli á öðru verði en hinu endurreiknaða stofnverði. Væntingar um hátt yfirverð fyrir bréfin kviknuðu og urðu ekki kveðnar niður. Grundvallarreglunni um að stofnfjárhafar ættu ekki tilkall til ágóðahlutar sparisjóðsins, nema aðeins af innborguðu stofnfé sínu, var ekki lengur haldið á lofti.“

Svo er hér mikilvæg setning, virðulegi forseti, þegar búið er að rekja nánar þær lagabreytingar sem voru gerðar á Alþingi á árinu 2007:

„Við þessar aðstæður var orðið djúpt á upphaflegum markmiðum sparisjóðanna.“

Ég held að þar séum við komin að kjarna málsins, þeim lærdómi sem alþingismenn verða að draga af gerð þessarar skýrslu. Það hefur reyndar verið gagnrýnt úr þessum ræðustól hversu hár kostnaðurinn var við gerð skýrslunnar. Það er engum öðrum um að kenna en alþingismönnum sjálfum hvernig búið var um hnútana, því miður, og ég hef margítrekað bent á það úr þessum ræðustól að Alþingi er því miður hvorki til þess búið að hér fari fram nægilega vönduð lagasetning, þótt vissulega séum við að stíga skref í þá áttina, né að halda utan um skýrslugerð af því tagi sem við höfum fyrir framan okkur. Við verðum að læra að okkar er ábyrgðin. Það erum við sem setjum reglurnar og við verðum að taka ábyrgð á því sem miður hefur farið úti í samfélaginu.

Ég man eftir því að árið 2008 var ákveðið að bíða í nokkra daga eftir hinni svokölluðu Larosière-skýrslu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í henni kom fram að það þyrfti að endurskoða ábyrgðina á bak við fjármálastofnanir almennt í Evrópu. Það gæti ekki verið að einstök lönd ættu að bera ábyrgð á öllum þeim gerningum sem færu þar fram. Ég held að það hafi verið rétt. Hvert og eitt ríki getur ekki borið ábyrgð á félögum sem eru 100% í eigu einstaklinga og hafa það eitt að markmiði að skapa þeim arð, ekki samfélaginu. Þetta skiptir máli. Ég held að þarna séum við komin að muninum á þeim sem aðhyllast frjálshyggju og þeim sem vilja gera samvinnuna og ábyrgð að sínu leiðarljósi í pólitísku starfi.

Hér kom aðeins til orðaskaks út af kaupfélögum. Það er alveg rétt að þeim hefur fækkað gríðarlega en það er þó ekki þar með sagt að hugmyndin á bak við þau hafi verið slæm. Ég held að hún hafi verið góð. Ég held að hún hafi reynst íslensku samfélagi vel þegar á heildina er litið en alltaf skulu það vera einhvers konar græðgissjónarmið sem fella þessar stofnanir. Við megum þá ekki hrökkva í þann gír að segja: Nú verðum við bara að opna þetta allt saman og hafa það frjálst og tryggja að hér verði engar litlar fjármálastofnanir heldur eingöngu stórar. Ég get ekki tekið undir orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar þegar hann fullyrðir að þessi skýrsla segi hreint og klárt að hér eigi ekki að vera rekið sparisjóðakerfi. Ég kvitta ekki upp á slíka röksemdafærslu. Við eigum með einum eða öðrum hætti að læra af þessari skýrslu. Ég á ekki von á öðru en að hún fái vandaða umfjöllun.

Það gleður mig ósegjanlega að sjá að hér sé gætt að andmælarétti, þveröfugt við það sem var gert hjá þeim sem gerðu skýrsluna um Íbúðalánasjóð. Það er grundvallaratriði að allir sem er fjallað um á einn eða annan hátt fái að koma fram með sín sjónarmið. Þetta er hluti af okkar lýðræðissamfélagi. Þetta er grunnurinn að þeim mannréttindum sem við stöndum fyrir og koma fyrir í stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ég er líka einkar glaður að sjá að viðhöfð séu viðurkennd akademísk vinnubrögð og vísað í heimildir og heimildamenn, þveröfugt við það sem því miður gerðist í skýrslu Alþjóðamálastofnunar um daginn. Það getur ekki verið að við sem eigum að vinna með staðreyndir og rök og viðhafa þau í öllu okkar starfi á Alþingi stjórnumst af einhverju sem einhver sagði hugsanlega. Alþingi á ekki að virka þannig. Störf okkar eiga ekki að einkennast af slíkum vinnubrögðum þannig að það er margt jákvætt og gott sem við getum tekið úr gerð þessarar skýrslu. Hún er vissulega dýr en það er á ábyrgð okkar alþingismanna.

Að lokum vona ég, eins og ég sagði áðan, að skýrslan fái jafn vandaða og ítarlega umfjöllun og skýrsla Íbúðalánasjóðs fékk og að menn hiki ekki við að gagnrýna allt það sem gagnrýna má í þessari skýrslu, niðurstöðu hennar, vinnubrögð við gerð hennar og annað.

Það er eitt að lokum, virðulegi forseti, sem ég gleymdi að minnast á, það að skýrsluhöfundum var falið það verkefni að koma með tillögur að úrbótum, tillögur að breytingu á lögum. Það var bæði í þingsályktunartillögunni um þessa vegferð og einnig því erindisbréfi sem nefndin fékk. Ég get ekki séð að í þessari skýrslu sé á nokkurn hátt fjallað um það atriði og það er miður. Ég ítreka að við þurfum með einum eða öðrum hætti að styrkja lagasetningu á Alþingi. Við þurfum að styrkja Alþingi almennt. Ég hef talað fyrir því frá því að ég tók sæti á Alþingi 2007 þannig að allt það sem kemur frá okkur verði vandaðra í framtíðinni.