143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er að koma betur og betur í ljós, nú þegar við förum að nýju yfir álagningu veiðigjalda og höfum þróað betri tæki til að dreifa því í einhverju samræmi við það hvernig afkoman er í einstökum tegundum, hversu langt úti á túni fyrrverandi ríkisstjórn var í álagningu gjaldsins á síðasta kjörtímabili, algerlega úti á túni. Það var boðað að á árunum 2013, 2014, 2015 og 2016 mundu gjöldin liggja á bilinu 18–20 milljarðar. Nú er öllum ljóst að gjaldið eins og það var í fyrra mundi ekki geta gilt á næsta fiskveiðiári án þess að það hefði í för með sér verulega auknar byrðar. (HHj: Aumingja útgerðin.) — Aumingja útgerðin, heyrist hér kallað úr þingsal. Staðreyndin er sú að útgerðin er eina starfsemin í landinu sem greiðir þetta sérstaka gjald. Því ber að fagna að við séum nú í fyrsta sinn komin með tæki til að dreifa álagningu gjaldsins í einhverju samræmi við afkomuna hjá útgerðinni sjálfri, sem sagt eftir tegundum.

Ég hef í sjálfu sér ekki stórkostlegar áhyggjur af því tekjutapi sem verður vegna verri afkomu útgerðarinnar strax á næsta ári. Höfum í huga að 1–2 milljarðar eru langt innan við 1% af tekjum ríkisins. Þó er slæmt fyrir þjóðarbúið í heild sinni þegar afkoman í greininni er að versna. Við þurfum þá að horfa til annarra greina og annarra þátta til að vinna upp tekjutapið. En aðalatriðið er að við erum að þróa kerfið betur með þessu nýja fyrirkomulagi þannig að gjaldið, (Forseti hringir.) hversu hátt sem það er hverju sinni, sé í einhverjum tengslum við afkomu útgerðarinnar eftir tegundum.