143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, það er mjög mikilvægt að fá tæki til að leggja gjaldið á með eins góðum hætti og mögulegt er. Við í Samfylkingunni viljum reyndar að það sé lagt á í frjálsum viðskiptum á markaði — það er besta leiðin — þannig að verðlagningin á veiðiheimildunum ráði gjaldinu sem útgerðin greiðir á hverjum tíma. Þá er tryggt að þjóðin deili kjörum með sjávarútveginum og kannski skynsamlegra að fara markaðsleiðina að þessu leyti frekar en leið stjórnvaldsákvarðana.

Hitt er rétt að muna að árið 2012 var mesta árangursár í sjávarútvegi í íslenskri sögu þrátt fyrir aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. Rétt er að hafa í huga — áður en menn fara að endurskrifa söguna, til að réttlæta lækkun á auðlindagjöldum, sem auðvitað er eðlilegt að grein greiði sem hefur ókeypis aðgang að auðlindum — að full efnisleg rök voru fyrir álagningu þessara gjalda. En eftir stendur núna: (Forseti hringir.) Hvað með gjald á makríl? (Forseti hringir.) Af hverju ekki að leggja gjald á upphafsúthlutunina á makríl?