143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Spurningin, sem stendur eiginlega upp á hv. þingmann að svara, er sú hvers vegna fyrri ríkisstjórn lagði ekki þetta gjald á úthlutun makrílsins. Hún lét það tækifæri fram hjá sér sigla þegar makríl var úthlutað til útgerðarinnar án gjaldtöku. Því verður hv. þingmaður að svara, sem studdi þá ríkisstjórn, hvers vegna það var ekki gert á þeim tíma. Það hefur ekki verið á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að hefja slíka gjaldtöku. Hins vegar hefur okkur verið þeim mun meira í mun að það gjald sem ríkið tekur til sín vegna aflaheimilda sé í einhverjum tengslum við afkomuna í viðkomandi veiðum.

Hér er nefnt að árið 2012 hefði verið sérstaklega gjöfult fyrir útgerðina. En höfum þá í huga að gjaldið eins og það var áður lagt á var í engum tengslum við það hvernig afkoman var hverju sinni. Það var bara krónutala á hvert þorskígildi og þannig hefði gjaldið verið óbreytt 2013 miðað við 2012. (Forseti hringir.) Það hefði líka verið óbreytt 2014 af því að menn voru aldrei í fyrri ríkisstjórn að reyna að komast (Forseti hringir.) til botns í því hver afkoman væri í einstökum tilvikum.