143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

veiðigjöld og hallalaus fjárlög.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði líka að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um hið nýja frumvarp um veiðigjöldin. Okkur er það öllum í fersku minni að það var forgangsmál hinnar nýju ríkisstjórnar síðasta sumar að lækka veiðigjöldin um 6,5 milljarða á ársgrunni. Nú er lögð til viðbótarlækkun upp á nærri 2 milljarða sem auðvitað vekur ýmsar spurningar. Þó að útgerðin andmæli þessari lækkun liggur líka fyrir að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sýndu á síðasta ári hagnað upp á 25 milljarða kr. og þeir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta mál segja að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin standi hæglega undir auknu veiðigjaldi.

Það er þó ekki sú prinsippumræða sem ég ætla að taka upp hér heldur langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um orð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem gegndi störfum fyrir fjármálaráðherra í síðustu viku. Hann var spurður um það í fregnum Ríkisútvarpsins hvort ekki þyrfti að grípa til aðgerða út af væntanlegum tekjumissi til að ná markmiðum um hallalaus fjárlög. Ráðherrann sagði að hann teldi ekki ástæðu til þess að menn settust sérstaklega yfir það í ljósi þess að heildarútgjöld ríkissjóðs væru nú einhvers staðar í kringum 600 milljarða og þetta væri þá lítið frávik frá því.

Nei, það er ekki ástæða til að setjast yfir það. Þá langar mig að rifja upp fjárlagaumræðuna hér fyrir ekki mjög mörgum mánuðum þegar álögur á námsmenn í háskólum voru hækkaðar upp á 180 milljónir til að ná markmiðum um hallalaus fjárlög, hækkun um 90 milljónir út af komugjöldum á heilsugæslu ef við ætluðum að ná markmiðum um hallalaus fjárlög. Við skárum niður þróunaraðstoð um 400 milljónir og það lá við að allt færi á hliðina þegar stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að ráðist væri í innheimtu á 200 milljónum í legugjöld á Landspítalanum. Hér er svo lögð til lækkun á veiðigjöldum sem nemur 2 milljörðum á ársgrunni og það þarf ekkert að setjast sérstaklega yfir það.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála kollega sínum um þetta eða hvort við eigum von á einhverjum aðgerðum, frekari skattheimtu eða niðurskurði, til að fjármagna þessa auknu lækkun veiðigjalda frá forsendum fjárlagafrumvarps.