143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

veiðigjöld og hallalaus fjárlög.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Vandinn við vinstri flokkana þegar kemur að umræðu um veiðigjöld er að þeir líta á afkomu útgerðarinnar sem einhverja skúffu, einhvern pott sem hægt sé að ganga í og skammta sér af.

Veiðigjöldin eru að lækka vegna þess að afkoman í greininni er að versna. Eða ætla menn ekkert að taka tillit til þess? Á þetta bara að vera þannig að menn ætla bara að skammta sér einhverja hlutdeild af hverju úthlutuðu þorskígildistonni alveg óháð því hvað er að koma út úr rekstri útgerðarinnar og segja: Þetta eigum við af því að við þurfum að nota það í hin ýmsu samfélagslegu verkefni?

Ja, það er leið 30 ár aftur í tímann, aftur til þess að taka fjárfestingu frá útgerðinni og við endum aftur með ríkisstyrktan búskap í sjávarútvegi á Íslandi eins og hér var lengi vel áður.

Frá þessu þarf að hverfa. Þess vegna verða menn að skilja í þessari almennu umræðu um veiðigjöld hér í þinginu að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarbúsins alls og útgerðarinnar að það gangi vel. Veiðigjöldin eru að lækka fyrst og fremst vegna þess að afkoman er að versna, vegna þess að verð á erlendum mörkuðum er ekki það sem það var á árinu 2012 og við veiðum ekki jafn mikið og við gerðum þá í ýmsum tegundum. (ÖS: Þess vegna …)

Ber að taka tillit til þess í langtímaáætlun í ríkisfjármálum? Já, að sjálfsögðu er slæmt að ríkið verði af miklum tekjum, meðal annars vegna verri afkomu í sjávarútvegi. Að sjálfsögðu. En eru þetta þær fjárhæðir að þær setji ríkisfjármálin í heild sinni í algjört uppnám? Nei, þetta setur ekki ríkisfjármálin í heild sinni í algjört uppnám. En það verður viðvarandi verkefni alls staðar — sama hvort það er í skráningargjöldum í háskólana, sem eru skráningargjöld fyrir nemendur, eða komugjöld á heilsugæsluna, eða hvar annars staðar sem við erum að horfa til hlutanna í rekstri ríkisins, (Forseti hringir.) — að sjá til þess að við nýtum fjármagnið sem allra best og dreifum gjöldum og álögum af sanngirni. (ÖS: … hækka komugjöldin …)