143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

veiðigjöld og hallalaus fjárlög.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sýnir sig að langtímaáætlun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum var algjörlega reist á sandi vegna þess að menn voru fyrir fram búnir að skammta sér 20 milljarða frá útgerðinni og svo er bara komið hingað aftur og aftur og sagt: Þeir þola þetta alveg í útgerðinni.

Þetta er orðin gjörsamlega prinsipplaus umræða af hálfu vinstri flokkanna í þinginu, umræða sem byrjaði á því að snúast um að menn ættu að greiða fyrir aðgang, hóflegt, sanngjarnt gjald, hún er farin að snúast um það hvað ríkissjóður þarf. Hvað þarf ríkissjóður? Hún snýst bara um það. Það er það eina sem vinstri flokkarnir tala um þegar kemur að veiðigjöldum í umræðu um auðlindagjöld og almennt gjöld á útgerðina. Hún snýst ekki um neitt annað.

Langtímaáætlunin var reist á slíkum gjöldum og já, það eru að falla niður tímabundnir skattar sem vinstri stjórnin lagði á, eins og auðlegðarskatturinn. Hann var tímabundinn skattur. Átti hann ekki að vera tímabundinn? Eða hvað, gilti það bara fram að síðustu kosningum? Ég hélt að hann hefði átt að vera tímabundinn eins og (Forseti hringir.) rætt var um. Og já, hann fellur niður. Svo er sagt að skattar séu ekki lækkaðir á láglaunafólk. (Forseti hringir.) Ríkið fær engan tekjuskatt af þeim sem eru með minna en 230 þúsund í tekjur og skattar lækkuðu á alla frá 240 þús. kr.