143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

ríkisfjármál og skuldaleiðrétting.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en það sé smám saman að komast til skila að þessi ríkisstjórn hefur sett aðgerðir fyrir skuldsett heimili í forgang. Ég vona að það sé smám saman að skýrast fyrir þingheimi að við höfum sett það mál á oddinn í stjórnarsamstarfinu og hyggjumst fylgja því eftir allt kjörtímabilið.

Ég er hér að vekja athygli á því að ríkið á mjög stórar eignir sem það tók lán til að eignast á sínum tíma, eða til að endurreisa íslenska bankakerfið til dæmis. Ef við horfum, svo að dæmi sé tekið, til Landsbankans þá erum við þar með eign sem gæti legið öðrum hvorum megin við 150 milljarða að lágmarki í virði; kannski 200 milljarða ef þannig stendur á hjá fjárfestum að eignir af þessu tagi séu hátt metnar.

Við getum notað alla þá fjárhæð ef sá hlutur er seldur 100%. Nú er ég ekki að leggja það sérstaklega til. Ég sé fyrir mér að ríkið mundi í fyrsta kastinu halda eftir verulega stórum eignarhlut, kannski helmingi eða svo. En þá erum við að tala um verulega (Forseti hringir.) stórar fjárhæðir sem fara beint í uppgreiðslu skulda og slá þannig stórkostlega niður vaxtakostnaði ríkisins (Forseti hringir.) til að geta sett fjármagn í innviði (Forseti hringir.) og ég deili því með hv. þingmanni að það er áhyggjuefni að það hafi setið eftir.