143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi 2014 stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að standa vörð um nýlegar hækkanir barnabóta er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að styðja dyggilega við bakið á barnafjölskyldum.“

Eitt af forgangsmálum í fjárlögum fyrir árið 2013 var að hækka barnabætur umtalsvert. Reiknireglu um tekjur og barnafjölda var þá breytt þannig að mun fleiri nutu bótanna en áður og voru þau samþykkt með lögum í desember 2012. Allar greiningar á greiðsluvanda heimila höfðu þá þegar leitt í ljós að hann er mestur hjá barnafjölskyldum, bæði hjá barnafjölskyldum sem eru skuldugar vegna húsnæðiskaupa og einnig hjá þeim sem ekki hafa keypt sér húsnæði. Besta leiðin til að mæta þessum vanda með almennum hætti er að hækka barnabæturnar. Þær hefðu þurft að hækka enn frekar í ár og á næstu árum, en tillaga hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í fjárlagafrumvarpi var um að sama krónutalan stæði fyrir árið 2014 en engar verðbætur fylgdu.

Tillaga meiri hluta hv. fjárlaganefndar var hins vegar að skerða barnabætur um 300 milljónir en fallið var frá þeirri tillögu. Í staðinn voru vaxtabætur skornar niður með þeim rökum að þeir sem skulda verðtryggð lán vegna íbúðakaupa fengju leiðréttingu í gegnum aðrar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Á árinu 2013 varð 262 millj. kr. afgangur af þeim 10,2 milljörðum sem ætlaðir voru í barnabætur. Líklega hefur hugmyndin um 300 millj. kr. niðurskurðinn komið fram þess vegna. Afgangurinn af árinu 2014 verður enn meiri ef reiknireglunni fyrir úthlutun barnabóta hefur ekki verið breytt eða verður ekki breytt frá því sem hún var í fyrra. Ástæðan er sú að laun hafa hækkað með nýjum kjarasamningum og þar sem bæturnar eru tekjutengdar fara sumir sem fengu bæturnar, upp fyrir viðmið í launum og aðrir fá færri krónur vegna hærri launa. Og ef reiknireglunni hefur ekki verið breytt frá því í fyrra til að fá greiddar barnabætur, er þetta í rauninni niðurskurður á barnabótum.

Ég vil því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hvaða reglur gilda um útreikning barnabóta? Hverjar eru óskertar barnabætur hjóna og einstæðra foreldra? Hvernig reiknast tekjuskerðingar barnabóta?

2. Urðu einhverjar breytingar á reglunum fyrir árið 2014 miðað við útreikning 2013? Ef svo er ekki, af hverju var reglunum ekki breytt í ljósi þess að hækkandi tekjur foreldra draga úr barnabótum í heild sinni? Ef svarið er já, í hverju fólust breytingarnar?

Þó að breytingarnar hafi ekki verið samþykktar með lögum um áramótin gerði fólk ráð fyrir því að af því að fallið var frá niðurskurði mundi það ekki þýða (Forseti hringir.) niðurskurð á barnabótum í raun.