143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er undarlegt að við skulum tala um barnabætur, sem er félagslegt atriði, í skattalögum og við fjármálaráðherra. Það er það fyrsta.

Í öðru lagi eru börn tryggð mjög víða í kerfinu. Til dæmis borgar Tryggingastofnun þeim sem falla frá eða verða öryrkjar eða eru aldraðir með börn á framfæri skattfrjálsan barnalífeyri. Hér eru börn tryggð í húsaleigubótum. Börn eru tryggð í barnabótum í skattkerfinu, sem hér er verið að ræða. Þau eru tryggð hjá LÍN, lánasjóðnum, en þar er lánað fyrir börnum sérstaklega. Þau eru tryggð í atvinnuleysisbótum, þau eru tryggð hjá lífeyrissjóðunum sem borga 7–20 þús. kr. með hverju barni ef foreldrar eru öryrkjar eða falla frá og þau eru tryggð hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga þar sem ríkisábyrgð er á meðlagi. Börnin eru einnig tryggð hjá sveitarfélögunum. Ég held að það sé mjög brýnt að við skoðum alla þá þætti þar sem börn eru tryggð vegna þess að við heyrum á sama tíma um fátækt meðal barna á Íslandi.