143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

samstarf á norðurskautssvæðinu og staða Íslands.

388. mál
[16:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar sem eru mjög mikilvægar og mikilvægar fyrir margt, ekki síst að við þurfum að sýna samstöðu þegar kemur að því að tryggja hag Íslands þegar kemur að þessum málum.

Ég vil fyrst segja það að ég hef lagt mikla áherslu á að gæta hagsmuna Íslands á norðurslóðum, meðal annars í Norður-Íshafinu. Sú hagsmunagæsla fer að stórum hluta fram á vettvangi Norðurskautsráðsins, en hafa ber í huga að ekki falla öll málefni svæðisins undir verksvið þess, t.d. afmörkun hafsvæða og auðlindanýting.

Í síðasta mánuði ritaði ég utanríkisráðherrum ríkjanna fimm, Bandaríkjanna, Kanada, Noregs, Rússlands og Danmerkur, bréf þar sem ítrekuð var sú krafa að Íslandi yrði veitt aðild að samstarfinu um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnar í Norður-Íshafinu. Þar var bent á að það svæði sem væri til umfjöllunar væri úthafið í Norður-Íshafinu að undanskildum þeim hluta þess sem fellur þegar undir Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina, NEAFC, þ.e. svæðið norður af Svalbarða og að norðurpólnum. Ljóst væri að þátttaka ríkja í umræddu samstarfi væri ekki háð því skilyrði að þau ættu efnahagslögsögu að áðurnefndu úthafssvæði enda ætti það ekki við um Noreg né heldur Færeyjar, sem hafa tekið þátt í nokkrum þessara funda. Íslensk stjórnvöld gerðu ekki athugasemd við þátttöku þessara landa sem ættu hagsmuna að gæta, en Ísland ætti ekki síðri rétt til aðildar að samstarfinu en þau.

Í bréfi mínu var gerður áskilnaður um rétt Íslendinga til fiskveiða á umræddu úthafssvæði í framtíðinni og vísað til þess að Ísland hefði raunverulega hagsmuni af veiðum þar í merkingu úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir okkar felast meðal annars í því að óvissa ríkir vegna breytinga á göngu fiskstofna. Sumir íslenskir fiskstofnar hafa gengið æ lengra til norðurs á undanförnum árum og ekki er unnt að útiloka að einhverjir þeirra gangi alla leið upp í Norður-Íshaf í framtíðinni.

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Danmerkur og Kanada hafa svarað bréfi mínu. Allir vísa þeir til þess að eðlilegt sé að ríkin fimm fjalli um málið sín á milli áður en önnur ríki komi að því þar sem þau séu strandríki að Norður-Íshafinu. Bandarísk stjórnvöld segja að samstarfið takmarkist í fyrstu við þau ríki sem eigi efnahagslögsögu að Norður-Íshafinu en sú fullyrðing fær ekki staðist samkvæmt því sem ég gat um áðan.

Í svarbréfi utanríkisráðherra Danmerkur kemur auk þess fram að ríkin hafi sammælst um ferli sem miði að því að komið verði á aðgerðum til bráðabirgða sem önnur ríki geti orðið aðilar að. Ætlunin sé að þau ríki komi að ferlinu fyrir árslok 2014 og hugsanlega verði niðurstaðan gerð bindandi alþjóðasamnings. Embættismenn ríkjanna fimm funduðu síðast í febrúarmánuði í Nuuk. Mér er kunnugt um að í framhaldi af þeim fundi er nú unnið að gerð ráðherrayfirlýsingar ríkjanna um takmarkanir á úthafsveiðum í Norður-Íshafi sem stefnt er á að undirrituð verði í sumar. Náist samkomulag ríkjanna um slíka yfirlýsingu er óvíst hvort það muni leiða til samnings þeirra í milli síðar.

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óásættanlegt að Íslandi sé haldið utan við þennan hóp. Við munum því og þurfum áfram, öll sem eitt, bæði ráðherra og þingmenn, að halda áfram þessari kröfu Íslands á lofti sem er sanngjörn og réttmæt.