143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tollfrjáls útflutningur landbúnaðarafurða.

560. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé brýnt mál. Ég er þeirrar skoðunar að á næstu árum muni svigrúm aukast verulega fyrir útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum. Við sjáum þá sigurför sem skyr hefur farið víða. Við getum að vísu ekki flutt nema 380 tonn til Evrópusambandslanda, en íslenskir framleiðendur hafa farið þá leið við að brjóta skyrinu leið inn á markaðinn og til að yfirstíga múra tollanna sem ella eru þeim ókleifir að veita sérleyfi til starfsstöðva, t.d. í Finnlandi. Þar selja menn þúsundir tonna af skyri. Auðvitað fer sumt af því út um Evrópusambandslöndin, en menn sjá hvað væri hægt að gera þarna ef Ísland mundi ganga í Evrópusambandið. Ég tel að það gæti skipt miklu máli.

Varðandi lambakjötið, reyndar allar kjötafurðir, er hægt að sjá að verð á því hefur farið verulega hækkandi á undanförnum árum. FAO, Sameinuðu þjóðirnar og OECD spá því að slík þróun haldi áfram út þennan áratug. Það er töluverður tími. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þetta sé þróun sem við munum sjá mjög lengi. Það eru góðar fréttir fyrir þá sem framleiða, ekki fyrir þá sem eru fátækir og þurfa að kaupa. En þetta er staðan.

Ég held að það hafi verið mikil framsýni af framleiðendum hér á landi þegar þeir fóru fram á 4.500 tonna kvóta fyrir lambakjöt inn á ESB. Það munar rækilega um það. Þá er spurningin: Geta íslenskir framleiðendur staðið undir slíkri aukningu? Ég tel svo vera. Það hefur verið slíkur samdráttur á framleiðslu á síðustu árum að nokkuð auðvelt væri að auka hana jafnt og þétt um fimmtung. Mundi það þýða meiri byrði fyrir skattgreiðendur í landinu? Nei, ekki miðað við óbreytt styrkjakerfi, vegna þess að menn fá ekkert meira en það sem um er samið núna, en þeir geta framleitt meira og flutt meira út. Það kemur að því (Forseti hringir.) að þeir ná góðu verði. Þessi þróun mun gera það að verkum að störf á strjálbýlustu svæðunum verða til á Íslandi. Það er það sem við þurfum. Við þurfum líka að styðja þau.