143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tollfrjáls útflutningur landbúnaðarafurða.

560. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Þær kröfur sem Evrópusambandið hefur gert í þessum viðræðum snúa fyrst og fremst að aukinni fríverslun og stækkun flestra núgildandi kvóta sem Evrópusambandið hefur haft varðandi innflutning. Það tekur til að mynda til innflutnings á ostum til Íslands og þess háttar, en í þessum viðræðum hefur Evrópusambandið fyrst og fremst sett fram kröfur um að hækka þá tollkvóta sem nú þegar eru í gildi í dag. (Gripið fram í.) Ágætt frammíkall hjá hv. þingmanni.

Það eru hins vegar mjög spennandi hlutir að gerast eins og við hv. þingmaður heyrðum í morgun, en við sátum á ársfundi Íslandsstofu. Þar flutti erlendur ræðumaður, kínverskur, Victor Gao, okkur fyrirlestur um möguleika í Kína og hvernig kínverski markaðurinn er að vaxa og þróast. Íslendingar munu að sjálfsögðu reyna að taka köku af þeim stækkandi markaði. Þegar við horfum á þróunina í Asíu, hvort sem það er í Kína eða annars staðar, þá er það svo að ef við fáum lítinn bita, örbita jafnvel, af þeim vexti sem þar er fyrir íslenska framleiðslu, hvort sem það er fiskur, sjávarútvegur, tækni, þjónusta, hugvit eða hvað sem er, þurfum við ekki að kvíða miklu næstu árin, í það minnsta varðandi byggðaþróun hér, framleiðsluaukningu og verðmætasköpun. Á þessum markaði eru mikil tækifæri.

En við megum ekki gleyma okkar nærmarkaði sem er að sjálfsögðu Evrópa, Evrópusambandslöndin, í gegnum EES-samninginn. Þess vegna ber okkur að standa vörð um samninginn við Evrópska efnahagssvæðið því að hann er tenging okkar við Evrópumarkaðinn í dag.

Við flytjum út u.þ.b. 380 tonn af skyri til Evrópu. Ég held að það sé rétt farið með hjá mér að það fari allt til Finnlands, að Finnar taki allan kvótann í skyri eða nánast allan til Evrópusambandslanda. Það eru gríðarleg tækifæri innan Evrópu í að stórauka útflutning á þessum afurðum og líka í Austur-Evrópu, ef við sjáum til sólar í þeim hörmungum sem þar eru uppi.