143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

húsakostur Landspítalans.

394. mál
[16:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Í ljósi síðustu orða hv. fyrirspyrjanda vil ég lýsa því sömuleiðis yfir að Framsóknarflokkurinn og þeir ágætu þingmenn og ráðherrar sem ég hef rætt þessi mál við eru mjög áfram um að treysta undirstöður starfseminnar sem Landspítala okkar er ætlað að veita, þessu þjóðarsjúkrahúsi. Ég held að það sé mjög skýr og einbeittur vilji alls þingheims til þess að koma málum til betri vegar á þjóðarsjúkrahúsinu. Ég tel það raunar endurspeglast í því þegar Alþingi samþykkti, í þeirri þröngu stöðu sem var við gerð fjárlaga fyrir árið 2014, að halda verkefninu lifandi þrátt fyrir erfiðleika við fjármögnun ýmissa verkefna og hélt því lifandi með því að veita fjármuni áfram til þess að halda áfram hönnunarþætti einnar byggingarinnar sem hugsuð er í þessu stóra samhengi, sem er sjúkrahótelið.

Vandinn við þetta verkefni er ekki sá að ekki séu til fjármunir í samfélaginu heldur er vandinn sá að koma því í skynsamlegan farveg hvernig ríkissjóður ætlar að fjármagna kostnað sem af verkefninu hlýst. Ég hef lýst því yfir sjálfur að við förum ekki að hagræða í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi upp á 2, 3, 4 milljarða til að greiða af afborgun lána við þetta verkefni. Það er ekki veruleikinn. Við þurfum að leita annarra leiða til að standa straum af þeim stofnkostnaði sem þarna um ræðir.

Ég vil undirstrika það undir lok ræðu minnar að ég þigg allan stuðning við þetta verkefni og lýsi yfir sérstakri ánægju með það að þingmenn eru mjög samhuga í því að reyna að koma þessum málum til betri vegar. Ég treysti því og trúi að okkur muni auðnast það og skal glaður gefa þinginu yfirlit yfir þá áfanga sem í þessu verki verða, hvenær svo sem það kemur inn á mitt borð, ég skal gera það með ánægju.