143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[16:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það má segja að svæðið undir Almenninga sé dansandi land, það er á stöðugri hreyfingu. Þetta þekkjum við sem erum tíðir pólitískir gestir á Siglufirði í fylgd hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Hvað eftir annað hef ég verið á ferð um þetta svæði og nánast kvatt vegagerðarmennina þegar þeir eru búnir að fylla í skörðin, en þá er nýtt skarð að myndast vegna jarðsigs. Ég tek því undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að það sé nauðsynlegt að skoða þetta rækilega.

Hæstv. innanríkisráðherra er raunsæiskona. Hún segir það alveg skýrt, og það eru tíðindin úr þessari umræðu, að ef menn ætli að finna varanlega lausn á þessum vanda sé hún einungis ein, sú að gera jarðgöng. Mér finnst það líka bera vott um framsýni ráðuneytisins og Vegagerðarinnar sérstaklega að vera búin að skoða og velta fyrir sér ýmsum leiðum. Hæstv. ráðherra hefur meira að segja látið slá á það tölu.

Ég segi eins og hv. þm. Kristján L. Möller að vísast er þetta aftarlega í röð jarðganga, en þetta eru sannarlega (Forseti hringir.) jarðgöng sem á að ráðast í (Forseti hringir.) í framtíðinni.