143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öðrum þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra sérstaklega fyrir það svar sem hún deilir með mér og öðrum sem hafa sett það fram, þ.e. að eina varanlega lausnin á samgöngum við Siglufjörð þessa leiðina sé jarðgöng, hvort sem það er úr Hólsdal eða Skarðsdal og yfir í Fljót, líkt og rætt var um þegar Strákagöng voru gerð. Illu heilli var sú leið ekki valin vegna þess að hún var örlítið lengri í göngum en ekkert var hugsað um vegagerð o.s.frv. Það væri margt öðruvísi ef það hefði verið gert.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur líka svarað því að þetta yrðu í kringum 5 kílómetra göng sem ég reyndar vissi. Mér virðist eins og það sé komið hér fram að hver kílómetri sé kominn í 1.500 milljónir.

Eins og ég segi: Þetta er framtíðarlausnin, hvenær sem hún verður. Þess verður kannski minnst einhvern tímann að við ræddum þetta á þessum degi. Kannski má segja að upphafið sé á þennan hátt, umræða hér á hinu háa Alþingi er oftast nær upphaf allra samgönguframkvæmda, ég tala nú ekki um stóru samgönguframkvæmdanna sem valda í raun byltingu á viðkomandi svæði, eins og segja má að Héðinsfjarðargöng hafi gert. Það sáum við til dæmis bara í fréttamiðlum nýlega þar sem háskólafólk á Akureyri sagði frá því hvaða jákvæðu áhrif Héðinsfjarðargöng hafa haft.

Virðulegi forseti. Það eru hinir miklu jákvæðu hlutir sem gerast með Héðinsfjarðargöngum sem kalla á að við tökum þennan veg til umræðu og framtíðarlausnir hvað hann varðar, vegna þess að breytingin hefur orðið geysilega mikil. Það sjáum við líka á þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Siglufirði sem er mjög jákvæð, og í (Forseti hringir.) Fjallabyggð allri. Það sýnir okkur (Forseti hringir.) að hér hefur verið hugsað stórt (Forseti hringir.) og hér er mikið að gerast.