143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum umræðuna um þessi mál sem eru, líkt og hefur komið fram, bæði í máli fyrirspyrjanda og annarra hér, gríðarlega mikilvæg. Ég get deilt því með þingmönnum að það var ágætisreynsla fyrir borgarbúann sem ég hef verið ansi lengi, verandi í borgarstjórn Reykjavíkur og komandi að þeim málum, að fá tækifæri til að kynnast þessum sjónarmiðum sem eru úti um allt land og þeirri vissu sem fólgin er í því að samgöngumannvirki, samgönguframkvæmdir, geti í raun breytt lífi fólks með svo dramatískum hætti að það skipti öllu fyrir ákveðnar byggðir. Þess vegna hef ég deilt því áður með þinginu og get gert það enn og aftur, nota hvert tækifæri til þess, að ég er þeirrar skoðunar að það sé eitt af brýnustu verkefnum framtíðarinnar fyrir Ísland að huga að auknum fjárfestingum í innviðum og tryggja að við séum að bjóða upp á það sem skiptir mestu máli fyrir fólk sem býr víðs vegar um landið, að það geti farið á milli staða og búið við öryggi hvað það varðar. Þetta er ein af þeim lausnum sem hvað oftast er nefnd og tengist því og við þekkjum og menn hafa lýst hér af meiri reynslu en sú sem hér stendur.

Ég þakka fyrir það en tek líka undir það, og alltaf verða að fylgja öllu ákveðin varnaðarorð, að biðlistinn, ef við köllum það biðlista, eftir göngum er eins og þingheimur þekkir nokkuð langur og mikill vilji mjög víða til að fara í ákveðnar framkvæmdir. Ég er þeirrar skoðunar, og sagði það í svari mínu áðan, að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem við verðum að staldra við og íhuga til framtíðar.