143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og tek undir með honum þegar hann fer yfir mikilvægi þessa máls og nauðsyn þess að ræða það á vettvangi Alþingis, nauðsyn þess líka að ná um þessi mál eins góðri sátt og mögulegt er. Ef það er eitthvað sem lýtur að nýjum ógnum hvað varðar öryggi og þætti er tengjast því að almenningur geti treyst því að hann geti nýtt sér frelsi sitt án þess að eiga á hættu að hið opinbera fylgist í of ríkum mæli með því eru það þættir sem tengjast því sem hv. þingmaður vekur hér athygli á.

Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að þessi niðurstaða, þessi úrskurður Evrópudómstólsins, markar tímamót. Hann markar í raun og veru kannski merkilegri tímamót en við höfum áttað okkur á vegna þess að með úrskurðinum erum við öll minnt á mikilvægi þess að hið opinbera gæti meðalhófs hvað varðar aðgang að upplýsingum um hegðun almennings og virði persónufrelsi. Það er gert afdráttarlaust þannig að hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að sú sem hér stendur muni óska eftir því að sams konar tilskipun verði innleidd í íslensk lög.

Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni sem þekkir söguna hvað þetta varðar betur en ég, þessi tilskipun hefur ekki verið tekin formlega upp í íslenskan rétt. Hins vegar er það líka rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, og ég ætla að staldra sérstaklega við það, að auðvitað felur 42. gr. laga um fjarskipti í sér mjög hliðstæðar heimildir og er að mörgu leyti efnislega afar lík þeirri tilskipun sem var felld úr gildi með úrskurðinum. Það er nokkuð sem ég tel að við eigum að staldra við og ég er þeirrar skoðunar að það sé full ástæða til að endurskoða það, ekki einungis vegna þess að þessi niðurstaða hafi verið eins og hún var 8. apríl, heldur líka vegna þeirra tæknibreytinga sem við höfum orðið vitni að og þeirra breytinga sem hafa orðið á veruleika okkar hvað þetta varðar.

Ég hef sagt áður og get endurtekið það að ég tel að allt sem tengist netöryggi, allt sem tengist persónuvernd hvað þetta varðar og þáttum er lúta að fjarskiptalögunum, þurfi að rýna með nýjum gleraugum í ljósi nýrra tíma. Hluti af því var það frumvarp sem ég flutti nýlega um að færa þessi netöryggismál yfir til almannavarnadeildar lögreglunnar og hluti af því er verkefni sem ég hef séð fyrir mér að mundi hefjast hér á haustmánuðum þegar sú skipan mála er komin í örlítið fastari skorður sem er að fá þingmenn allra flokka til að fara yfir þessi lög og velta fyrir sér hvernig við mætum þeim breytingum sem hafa átt sér stað, bæði í þessum veruleika okkar sem ég lýsti hér áðan en ekki síður að taka mið af þeirri umræðu sem hefur verið á vettvangi annarra ríkja og tryggja að við séum í fararbroddi á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Ég tel að í því samhengi öllu saman og get upplýst þingheim um það, reyndar hef ég gert það hér áður, að úti í stærri heimi en Ísland eitt og sér er, þar sem til dæmis dómsmálaráðherrar eða ráðherrar innanríkismála hittast, er þetta það viðfangsefni sem er fyrirferðarmest í alþjóðlegri umræðu í dag, viðfangsefni sem er ástæða til að hafa áhyggjur af, viðfangsefni sem við eigum að huga það. Ef þingmaðurinn var að leita eftir skoðun minni hvað þetta varðar er ég á svipuðum stað og hann sjálfur. Ég tel að þessi niðurstaða gefi tilefni til ákveðinnar skoðunar og þrátt fyrir að tilskipunin hafi ekki verið formlega innleidd í íslenskan rétt byggi okkar lög á svipuðum grunni og það sé full ástæða til að yfirfara það.