143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á þessu og sömuleiðis fagna ég viðbrögðum hæstv. innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, í þessu máli. Mér sýnist vera mikill samhugur um þetta mál og það gleður mig mjög mikið. Svokölluð gagnageymd sem tilskipunin varðar er nokkuð sem við píratar höfum stefnt að frá upphafi að afnema, enda er klárt mál að okkar mati að hún brjóti í veigamiklum atriðum gegn friðhelgi einkalífsins.

Mig langar að nefna það sérstaklega í þessu samhengi að í dómnum kemur fram að hluti af þeim vandamálum sem tilskipunin ber með sér er að það er engin skilgreining á því hvaða upplýsingum eigi að safna heldur á einfaldlega að safna upplýsingum um alla notendur netsins. Það er engin greinargóð skilgreining á tilgangi upplýsingasöfnunarinnar heldur er það almennt orðað sem alvarlegir glæpir. Í íslenskum lögum er sagt að það sé í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis og er erfitt að (Forseti hringir.) orða það með almennari og óskýrari hætti að mínu mati. Lengra get ég víst ekki haft þetta í bili, en ég fagna viðbrögðum hæstv. ráðherra og þakka aftur hv. þingmanni.