143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að þetta mál allt frá upphafi til enda sé til marks um það hversu vel þingið vinnur og ég tek ofan fyrir þeim þingmönnum sem á sínum tíma fóru í þetta mál og ekki síður fyrir þeim sem tóku það upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Hér var nefndur Snowden, sem kom fram með mjög merkilegar upplýsingar fyrir ári síðan. Hann var fordæmdur af mörgum stjórnmálamönnum í grannlöndunum og hugsanlega einhverjum hér, ég ætla ekki að rifja það upp. En í tilefni af því langar mig til þess að spyrja hæstv. innanríkisráðherra, sem ég sagði um hér fyrr í dag að væri ærleg raunsæiskona, hvort hún sé ekki sammála því mati, þegar maður lítur yfir sviðið frá því að upplýsingar komu fram frá Edward Snowden, að hann hafi ekki gert heimsbyggðinni allri mikið gagn með því að upplýsa þá leyndardóma sem hann bjó yfir. Í öllum löndum heims hafa þær kveikt miklar umræður og leitt til þess að menn haga sér með öðrum hætti og eru miklu varari um sig, þeir vita að minnsta kosti að fylgst er nánast með hverjum andardrætti þeirra, ef svo má að orði komast, sem fram fer um víðáttur netsins.