143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur tek ég undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og vil árétta það sem kom svo vel fram í máli hv. fyrirspyrjanda í síðustu ræðu hans, ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að við höfum staldrað þarna við 42. gr., bara vegna þess að hún er að stofni til mjög svipuð þeirri tilskipun sem við ræddum, tel ég að það eitt og sér sé ekki nægjanlegt. Þess vegna vísaði ég í það að ég hefði áhuga á að fá þverpólitískan hóp til að fara yfir þessi netöryggispersónuverndarmál og þessa nýju tækni og hvar við ætlum almennt að láta frelsið enda og eftirlitið taka við. Ég held að það muni kalla á meira en bara ákvörðun um 42. gr.

Ég fagna því sem kom fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að málið væri til umræðu og umfjöllunar í þingnefnd. Mér finnst það afar gott og tel mikilvægt að við stillum saman strengi í því. Þeirri sem hér stendur er alveg sama í því samhengi hvaðan gott kemur, ég tel mikilvægt að við vinnum að þessu sameiginlega.

Líkt og svo oft áður kom hv. þm. Össur Skarphéðinsson með spurningu sem er einhvern veginn erfitt að svara en um leið erfitt að sneiða hjá. Ég á mjög erfitt með að lýsa því yfir úr ræðustól á hv. Alþingi að ég telji að lögbrot sé með einhverjum hætti farsælt. Auðvitað stóðst þessi aðgerð ekki lög í viðkomandi landi. Ég held hins vegar að það sé óhætt að segja, ég tek undir það með hv. þingmanni, að stundum þurfi einhvers konar óhefðbundnar uppákomur til að við horfumst í augu við þann veruleika sem við búum við. Það er alveg á hreinu að það sem gerðist í kringum Snowden-málið, hvaða hlið á því sem við kjósum að líta á, hefur valdið því að þessi viðfangsefni eru til umræðu með allt öðrum hætti en þau voru fyrir nokkrum mánuðum og missirum. Með því er ég ekki að lýsa neinu samþykki hvað varðar þær aðgerðir (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) en ég hef tekið eftir því, (Gripið fram í.) ég ítreka að ég hef tekið eftir því og fundið fyrir því í þeim alþjóðasamskiptum sem ég á í (Forseti hringir.) og fer með fyrir hönd ráðuneytisins, að sannarlega hefur þetta haft mikil áhrif. (Forseti hringir.) Kannski erum við reiðubúin eftir nokkur ár að gefa skarpari yfirlýsingar hvað það varðar en ég er reiðubúin að gera nákvæmlega núna.