143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn til að vera í salnum og hlusta á þetta skemmtilega mál, það rjúka allir hv. þingmenn á dyr. (ÖS: Ekki ég.) Ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Mig langar hins vegar að koma því á framfæri við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að sleifarlagið sem hér um ræðir er af hálfu Evrópusambandsins sem kláraði ekki sína heimavinnu fyrr en um miðjan mánuðinn. Þess vegna erum við svona á eftir með þetta blessaða mál.

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á XX. viðauka við EES-samninginn (Umhverfismál) og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020. Ég geri ráð fyrir að allir hafi náð þessu.

Með reglugerðinni er gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir breytt hvað varðar flugstarfsemi til ársins 2016. Nánar tiltekið er gildissvið kerfisins þrengt þannig að skyldan til að skila inn losunarheimildum fyrir losun frá flugi nær einungis til flugumferðar innan EES en ekki líka til flugs til og frá svæðinu eins og kveðið er á um í eldri tilskipun.

Þetta takmarkaða gildissvið viðskiptakerfisins hvað varðar flugstarfsemi skal gilda fram til 2016 en það ár er gert ráð fyrir að fyrir liggi samningur á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um að koma á alþjóðlegu markaðskerfi til að draga úr losun frá flugstarfsemi á heimsvísu. Framhaldið verður því endurskoðað árið 2016.

Þá er í gerðinni einnig gert ráð fyrir því að uppgjör losunarheimilda vegna losunar frá flugi innan EES árin 2013 og 2014 fari fram árið 2015, þ.e. að ekki þurfi að skila inn neinum heimildum fyrir árið 2014.

Reglugerðin öðlast gildi innan Evrópusambandsins 30. apríl nk. Gerðin tekur við af ákvörðun 377/2013 um tímabundið frávik frá framangreindri tilskipun 2003/87/EB. Þar sem ákvörðun 377/2013 nær einungis til losunar frá flugi fram til loka árs 2012 og frestur til að greiða losunarheimildir fyrir losun ársins 2013 rennur út þann 30. apríl nk. er mikilvægt að reglugerðin verði tekin inn í EES-samninginn fyrir þann tíma. Að öðrum kosti tekur hið upprunalega gildissvið tilskipunarinnar aftur við í EES/EFTA-ríkjunum og þar með hérlendis. Slíkt væri óheppilegt og mundi í tilviki Íslands gefa misvísandi skilaboð til þeirra tæplega 300 erlendu flugrekenda sem Ísland hefur umsjón með samkvæmt tilskipuninni og eiga að skila skýrslu um losun sem og losunarheimildum til Umhverfisstofnunar.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar ber að afla samþykkis Alþingis áður en ákvörðunin er staðfest. Almennt eru ákvarðanir sameiginlegu nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar teknar með stjórnskipulegum fyrirvara og í kjölfarið leitað heimildar Alþingis til staðfestingar. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins EES/EFTA-ríkis frestar hins vegar gildistöku viðkomandi ákvörðunar enda hefur slíkt í för með sér að viðkomandi ákvörðun öðlast ekki gildi fyrr en að tilteknum tíma liðnum frá því að viðkomandi ríki hefur lýst því yfir að fyrirvaranum sé aflétt.

Þar sem það er mikilvægt að þessi ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar öðlist gildi um leið og hún verður tekin, þ.e. að ekkert EES/EFTA-ríkjanna setji stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina, er í þessu tilviki leitað fyrirframheimildar Alþingis — og því rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti hér áðan — fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta þá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem mun kveða á um upptöku reglugerðar í EES-samninginn án stjórnskipulegs fyrirvara.

Breyta þarf lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, til að fullinnleiða reglugerðina og verður frumvarp þar um lagt fram á Alþingi haustið 2014. Frumvarpið kemur því í haust.

Helstu áhrif reglugerðarinnar felast annars vegar í því að þar sem ekki þarf að greiða fyrir losun frá flugi til og frá EES fram til 2016 munu þeir flugrekendur sem fljúga á slíkum leiðum ekki þurfa að kaupa losunarheimildir vegna þeirra. Við þetta sparast kostnaður hjá þessum flugrekendum. Þá er í reglugerðinni einnig kveðið á um að flugrekendur með árlega losun undir 1 þús. tonnum falli utan kerfisins sem hefur í för með sér að fjöldinn allur af flugrekendum muni falla utan viðskiptakerfisins og ekki þurfa að greiða fyrir sína losun, enda er hún mjög lítil. Það ætti líka að draga heldur úr álagi hjá Umhverfisstofnun sem hefur hingað til haft umsjón með mjög mörgum flugrekendum með litla losun.

Það skal tekið fram að íslenskir flugrekendur hafa verið með í ráðum varðandi þetta og eru vel upplýstir um málið.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.