143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nánast grátandi að ég kem hér í ræðustól yfir þessu máli. Ef þeir sem á sínum tíma voru forustumenn þess að Ísland gerðist aðili að EES-samningum væru ekki allir á lífi þá mundu þeir bylta sér grátandi í gröf sinni yfir þessu. Ég dreg það í efa að menn hefðu nokkru sinni lagt í það að samþykkja samninginn á sínum tíma í því harða andrúmslofti sem þá var ef menn vissu að það ætti eftir að gerast að Alþingi yrði beðið um að samþykkja reglur frá Evrópusambandinu sem sambandið sjálft er ekki einu sinni búið að setja með formlegum hætti, eða það var það að minnsta kosti ekki á hádegi í dag. Hæstv. ráðherra getur þá upplýst um það ef það hefur eitthvað breyst.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að það er prinsippmál: Mun ég sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd geta séð hina endanlegu reglugerð sem við eigum að fallast á? Ég geri mér grein fyrir því að það eru miklir hagsmunir undir. Þeirra var þó ekki getið neitt sérstaklega í framsögu hæstv. ráðherra. Þó að ég sé ekki að krefja hæstv. ráðherra um að upplýsa það upp á punkt og prik þá finnst mér lágmark að menn viti nákvæmlega að lokinni umfjöllun þessa máls sem á að gera hér á mettíma, á tveimur sólarhringum, hvaða hagsmunir eru í húfi.

Þetta mál er í reynd sama málið og við afgreiddum hér með lögum nr. 290/2012 og þá vildi svo til að bæði núverandi formaður utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra töldu að málið væri brot á stjórnarskrá. Að vísu sá hv. þm. Birgir Ármannsson að sér en hæstv. utanríkisráðherra treysti sér ekki á þeim tíma til að styðja nákvæmlega þetta mál. Nú kemur hann hér sem sérstakur teppalagningarmeistari Evrópusambandsins.