143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hvað má ég tala lengi?

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður hefur samkvæmt þingsköpum 10 mínútur, 5 sekúndur hafa þegar liðið af ræðutíma hv. þingmanns.)

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og verið væri að kalla eftir því að ég talaði hér lengi í málinu, ég skildi hv. þm. Össur Skarphéðinsson þannig, en ég skal halda mig við þingsköpin.

Virðulegur forseti. Það er gaman að fylgjast með þessari rimmu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hæstv. utanríkisráðherra um málsmeðferð EES-tilskipana. Menn gætu auðvitað leikið sér að því að núa mönnum einhverju um nasir, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, varðandi afstöðu á fyrri tíð en ég vil heldur ekki gera það og kýs frekar að segja: Batnandi mönnum er best að lifa. Ef menn skipta um skoðun þá er það ágætt.

Þetta mál sem hér er til umfjöllunar hefur að minnsta kosti tvær hliðar, og ég kýs að nefna tvennt. Það er annars vegar hin efnislega hlið, þ.e. hvað felst efnislega í tilskipuninni eða tillögunni sem hér liggur fyrir, og hins vegar hin formlega sem vísar meira til tímasetninga og slíks eins og kom fram í andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég hef gluggað í þessa tillögu og efni hennar og ég get ekki skilið hana öðruvísi en að það séu ríkir hagsmunir í húfi fyrir flugrekendur og flugstarfsemi okkar að innleiða þessa tilskipun. Hún fjallar um losunarheimildir sem áttu að gilda um alla flugstarfsemi innan EES-svæðis og líka út úr EES-svæðinu og að fresta gildistöku þessara kvaða að því er varðar flug út úr EES-svæðinu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að sömu reglur gildi um alla aðila sem hér eiga hlut að máli. Þess vegna þurfa öll EES-ríkin, bæði Evrópusambandsríkin og EES-ríkin í EFTA, að taka þessa tilskipun inn í sín lög.

Það má velta því fyrir sér hvort hér sé á ferðinni einhvers konar afsláttur af hugmyndinni um losunarheimildir, þ.e. að menn séu að gefa svolítið eftir. Hugmyndin var sú að vegna loftslagsbreytinga og þeirra áhrifa sem þau hafa í för með sér, m.a. útblásturinn, þyrfti að reyna að hafa stjórn á því eða takmarka útblásturinn. Það er gert með skattlagningu eða með því að menn kaupi sér svokallaða losunarkvóta. Ef það á bara að gilda innan EES-svæðisins en ekki út úr EES-svæðinu, eins og upphaflega var lagt upp með, má velta fyrir sér hvort menn séu ekki að bakka svolítið með það prinsipp, a.m.k. tímabundið. Ég hef skilið það þannig að reynst hafi ómögulegt að koma þessu á í tengslum við flug út úr EES-svæðinu og því sé þessarar heimildar leitað.

Ég get fyrir mína parta staðið að og stutt efnislega þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég áskil mér þó rétt til þess við meðferð málsins í utanríkismálanefnd að leita eftir frekari upplýsingum til rökstuðnings fyrir því að þessa leið þurfi að fara. Ég geng út frá því að á vettvangi utanríkismálanefndar, sem reyndar hefur verið boðað að komi saman þegar í kvöld til að ræða þetta mál, komi gestir frá viðeigandi ráðuneytum og frá fyrirtækjum sem þetta varðar og þeir geti upplýst okkur nánar um efnislegan þátt málsins og við getum þá komið fram með spurningar til þeirra.

Að því er varðar hina formlegu hlið og það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vakti athygli á þegar hann tók til máls fyrr á fundinum um atkvæðagreiðsluna, um afbrigðin vegna þessa máls, þá er hér leitað eftir því að Alþingi veiti heimild fyrir fram. Nú er það í sjálfu sér þannig að Alþingi getur, formlega séð, á hvaða stigi máls sem er veitt slíka heimild. Það er þó óvenjulegt ef hún nær til skjals sem ekki er orðið endanlegt. Þess vegna finnst mér að sú athugasemd sé lögmæt í umræðunni að menn velti fyrir sér hvenær tilskipunin er komin í endanlegt form, hvenær við vitum hvernig hún lítur út og hvenær Evrópusambandið ætlar að ganga frá henni. Væntanlega eru sömu tímafrestir þar eins og hjá okkur þannig að líklega þarf hún að afgreiðast þar áður en þessi tímafrestur rennur út, þ.e. á næstu tveimur sólarhringum eða svo. Hvenær munum við þá fá endanlega útgáfu?

Þetta eru hlutir sem ég mundi líka telja að utanríkismálanefnd þyrfti að kalla eftir að fá svör við vegna þess að það er svolítið sérkennilegt að veita heimildina án þess að hafa séð hvað á henni hangir. Það væri líka fróðlegt að vita hvort fordæmi séu fyrir því. Ég man ekki eftir því og veit ekki til þess en það kann vel að vera að í 20 ára sögu EES-samstarfsins séu einhver fordæmi fyrir slíku. Þetta eru hlutir sem við þyrftum að minnsta kosti að fá fram vegna þess að svona hluti þarf að rekja í nefndaráliti svo að menn viti í eftirtíð hvað hér var á ferðinni og hvað vakti fyrir nefndinni og hvaða upplýsingum hún hafði úr að moða þegar hún lagði fram nefndarálit sitt og tillögu um afgreiðslu málsins.

Þetta eru í stuttu máli sjónarmið sem ég vildi koma að við fyrri umr. um tillöguna. Efnislega tel ég einboðið að við reynum að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt upp með en það eru vissulega nokkrar spurningar sem við þyrftum að fá svör við í vinnu nefndarinnar. Svo tel ég að við lokaafgreiðslu málsins þyrfti lokaútgáfa tilskipunarinnar helst að liggja fyrir og að við mundum vita hvenær Evrópusambandið ætlar að afgreiða hana fyrir sitt leyti. Væntanlega afgreiðir Evrópusambandið endanlega útgáfu þegar að því kemur og eins og ég segi hlýtur það að gerast á næstu tveimur sólarhringum.