143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er með þingreyndustu mönnum og einn af þeim sem hefur hvað mesta reynslu af utanríkismálum, af þeim töldum sem hér sitja endranær. Telur hann að það sé yfir höfuð boðlegt að mál af þessari stærðargráðu, sem er jafn flókið og það er, með tilliti til stjórnarskrárinnar til dæmis, komi með þessum hætti inn í þing og eigi að keyra í gegnum þingið á tveimur sólarhringum? Hvað finnst honum þegar ofan á það bætist að reglugerðin sem Alþingi er beinlínis fyrirskipað að samþykkja er tæknilega ekki til? Hún hefur verið samþykkt í Evrópusambandinu en hefur ekki verið sett með formlegum hætti. Er hægt að bjóða löggjafarsamkundunni upp á vinnubrögð af þessu tagi? Hvað finnst hv. þingmanni um það?

Ég hef stundum sagt það hér í umræðum, þegar stjórnarskrá og Evrópska efnahagssvæðið ber á góma, að ég er mjög orþódox í þeim efnum. Ég tel að stjórnarskrá eigi jafnan að njóta vafans. Það er hægt, með því að rekja sig í gegnum tímasetningar í þessu máli, að skilja af hverju hæstv. ráðherra kemur svo seint með þetta inn í þingið. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að þetta sé örugglega í samræmi við stjórnskipulegar hefðir og síðan stjórnarskrána sjálfa?