143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef þegar sagt það í umræðum hér og í greinargerðum fyrir atkvæðagreiðslu áðan að ég er efnislega ekki á móti innihaldi frumvarpsins. Ef ég teldi að það væri í andstöðu við stjórnarskrána dytti mér ekki í hug að greiða þessu atkvæði. Jafnvel þó að hagsmunirnir gætu hugsanlega hlaupið á milljörðum mundi ég aldrei greiða því atkvæði.

Ég tel að ef maður skoðar efni þessa máls sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að það er ívilnandi gagnvart þeim sem sæta afleiðingum samþykktarinnar og þar af leiðandi tel ég mjög erfitt að færa rök fyrir því að það sé brot á stjórnarskrá frá þeim bæjardyrum séð.

Ég velti því hins vegar fyrir mér í fullri alvöru hvort það samræmist stjórnskipulegum hefðum og hvort það sé þar með bókstaflega talað í samræmi við stjórnarskrána — og það hvernig á að ganga um hana — að bjóða Alþingi upp á að klára svona stórt mál á tveimur dögum. Það hefur náttúrlega oft gerst áður. Og við sjálfir stjórnarmegin tilverunnar höfum verið sekir um slíkt. Ég get fúslega viðurkennt það. En það sem er eins og högg fyrir bringsmalirnar er að hér er verið að leggja til upptöku á reglugerð frá Brussel sem Evrópusambandið er ekki formlega búið að setja. Tæknilega er hún ekki til. Tæknilega er hægt að breyta henni. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé gert en ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að system þurfi að vera í galskabet og formið skiptir máli og ég held að formið sé algerlega kolrangt í þessu efni.