143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég segi, þetta eru álitamál sem ég tel að við þurfum þá bara að fjalla um í utanríkismálanefnd og fá betri og nákvæmari upplýsingar um. Sem fylgiskjal með þessari tillögu er þessi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins breytt. Hún er að vísu númerslaus/2014, þannig að ekki er komið á hana númer. En hér getur auðvitað skipt máli, eða ég ímynda mér að það geti skipt máli fyrir stjórnskipunarfræðingana, hvort Evrópusambandið sé búið að afgreiða þessa útgáfu svona. Það veit ég ekki nákvæmlega en ef það er þannig að Evrópusambandið er búið að afgreiða hana svona og það eigi bara eftir að birta hana í þeirra stjórnartíðindum finnst mér það geta skipt máli fyrir afstöðuna hvað þetta varðar. Ég vil bara segja að ég tel að við þurfum að fara yfir það í utanríkismálanefnd.

Ég held að það sé líka rétt að halda því til haga að það er ekki sanngjarnt að halda því fram, þó að kannski megi oft segja það um hæstv. ríkisstjórn, að eitthvert sleifarlag sé hér á ferðinni. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum örugglega sammála um að það væri ánægjulegt að geta sagt það sem oftast en ég er ekki alveg viss um að það sé réttmætt að gera það í þessu tilfelli. Eins og ég hef skilið þetta mál þá er þetta í raun nýafgreitt eða nýlega um það fjallað af hálfu Evrópusambandsins og frekar hafi þá verið tafir þeim megin, að verið sé að koma með það hingað inn eins fljótt og hægt er, eftir að Evrópusambandið hafði fjallað um þetta. Þess vegna segi ég að í þessu samhengi getur skipt máli hvort Evrópusambandið er búið að samþykkja þetta fyrir sína parta jafnvel þó að ekki sé búið að birta þetta. En það skulum við ræða við einhverja stjórnskipunarfræðinga.