143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að hæstv. utanríkisráðherra hefur fengið skilaboð um að það liggi fyrir en hann vissi það ekki þegar hann var spurður að því fyrr í umræðunni alveg eins og ráðuneytið virðist ekki hafa gefið hæstv. ráðherra þær eðlilegu upplýsingar að hann viti nákvæmlega hversu miklir hagsmunir eru undir. Þó að ég sé þakklátur hæstv. ráðherra fyrir að ætla að senda mér þetta þá geri ég ráð fyrir því að hans ágætu starfsmenn muni upplýsa okkur um hvort tveggja í nefndinni þegar við höldum fund hér á eftir um þetta tiltekna mál.

Það er alveg ljóst að þegar um svona mál er að ræða — þar sem nota þarf skójárn ef ekki járnkarl til að spenna það þannig að það flúkti við stjórnarskrána — verða menn að þekkja það út í hörgul. Ég ætla mér það að minnsta kosti, með góðri hjálp hv. formanns utanríkismálanefndar, að hafa mun gleggri mynd af afleiðingum þessa máls og það hvað er undir þegar málið verður að lokum afgreitt frá nefndinni og kemur hér til þingsins; væntanlega samþykkt áður en hinn tilskildi frestur rennur út.

Það skiptir alltaf máli að upplýsa þingheim um allt sem mikilvægt má telja. Í þessu tilviki eru þetta mikilvægar upplýsingar sem ráðherra kemur nú hlaupandi með í ræðustól alveg eins og það voru mikilvægar upplýsingar sem hann kom með hlaupandi fyrr í dag um hvenær ráðherraráðið kláraði málið og hvenær ætti að gera þetta tæknilega að fullgildri reglugerð með birtingu í stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Í reynd má segja að þetta séu lágmarksupplýsingar sem ættu að liggja fyrir í greinargerð og það hefði örugglega greitt fyrir þessari umræðu.