143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2014 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 7. og 9. apríl 2014. Samningur þessi kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvor annars á árinu 2014. Hann er óbreyttur frá fyrri árum að öðru leyti en því að ekki er kveðið á um heimildir færeyskra skipa til loðnuveiða í íslenskri lögsögu á vertíðinni 2014/2015 heldur er tekið fram að ákvörðun þar að lútandi verði tekin á fundi aðila síðar á árinu 2014. Þó er kveðið á um að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2014/2015 að veiða allt að 10 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.

Í samningnum er gert ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2014. Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2 þús. lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2014.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 9. apríl 2014 og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.

Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2014. Heildarafli þorsks verður þó ekki meiri en 1.375 lestir, heildarafli keilu ekki meiri en 750 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.