143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef mörgum sinnum komið að samningum við Færeyinga sem utanríkisráðherra eða fylgst með þeim í gegnum nefndir sem ég hef setið í á hinu háa Alþingi. Það má segja að nánast hvert ár hafi komið þrýstihópur sem hefur reynt að ná því fram að við hættum að gefa Færeyingum þessi 30 þús. tonn. Sá þrýstihópur heitir Landssamband íslenskra útvegsmanna. Aftur og aftur er það algjörlega klárt að þeir hafa að minnsta kosti viðrað það sterklega á bak við tjöldin. Það hafa þeir náttúrlega gert núna og kannski fullkomlega eðlilegt að það sé meiri þrýstingur af þeirra hálfu en áður vegna þess að loðnustofninn er í vondu standi. Nú trúi ég hæstv. utanríkisráðherra fyrir því að ég hef ekki haft fyrir því að lesa mig aftur í tímann og kanna hvernig loðnustofninn hefur þróast, en oft hefur hann farið langt niður. Það hafði hann líka gert 1990 og menn gerðu ráð fyrir því og það er þess vegna sem hinir upphaflegu samningar sem við gerðum við Færeyinga um þessi 30 þús. tonn voru þannig að ef við veiddum 500 þús. tonn fengju Færeyingar 30 þús. tonn, ef við færum undir það fengju þeir 5% af leyfilegum heildarafla.

Sömuleiðis voru settar ákveðnar kvaðir á um það hversu mikið þeir mættu veiða innan íslensku lögsögunnar og hversu mikið þeir mættu vinna um borð vegna þess að LÍÚ var líka að vernda markaði Íslendinga fyrir loðnuhrogn til Japans sem við höfum setið að.

Á sínum tíma, og ég dyl það ekkert, var ég þeirrar skoðunar og reyndi að beita mér fyrir því í ríkisstjórninni að þeim hömlum yrði aflétt vegna þess að mér fannst Færeyingar bera skarðan hlut frá borði í samskiptum okkar, t.d. að því er varðar Höyvíkur-samninginn sem er flottur samningur en gagnast að verulegu leyti bara Íslendingum en í miklu minni mæli Færeyingum. Mér fannst þess vegna sanngjarnt að (Forseti hringir.) þeir fengju þetta. Og þetta ætti hæstv. ráðherra líka að hafa í huga þegar kemur að lyktum þessa máls.