143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í dag eru sjö þingfundadagar eftir af þessu þingi. Núverandi ríkisstjórn gagnrýndi harðlega fyrrverandi ríkisstjórn fyrir það hve seint málin komu fram. En hver er staðan? Að minnsta kosti 20 stjórnarmál bíða 1. eða fyrri umr., þar á meðal frumvörp um opinber fjármál og um veiðigjöld sem eru á dagskrá dagsins í dag. Að auki eru fjölmörg stjórnarmál og þingmannamál í nefndum, þar á meðal afturköllun umsóknar um aðild að ESB sem stjórnarflokkarnir virðast ekki ná saman um hvort eða hvernig á að afgreiða. Einhvern tíma hefðu orðin „verklaus ríkisstjórn“ verið notuð.

Í útvarpinu í morgun kom fram hjá sjávarútvegsráðherra að hann teldi jafnvel enn of langt gengið gagnvart útgerðinni er varðar greiðslur fyrir afnot af sjávarauðlindinni og formaður atvinnuveganefndar hefur rætt um breytingar á frumvarpinu áður en ráðherrann mælir fyrir því. Nýja taktíkin er sú að við sem erum ekki sammála þessari viðbótarniðurfellingu á veiðigjöldum viljum aðeins horfa á þau út frá þörfum ríkissjóðs. Þetta snýst og hefur alltaf snúist um að greiða sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni okkar, en okkur Vinstri græn og ríkisstjórnarflokkana greinir hins vegar á um útfærsluna. Við viljum nefnilega ekki kasta frá okkur tekjum þeirra sem geta borgað, eins og útgerðin getur svo sannarlega gert. Og ekki gleyma því að hún stendur vel og hefur gert. Þrátt fyrir að afkoman hafi eitthvað dregist saman þá er það frá því hún var í hæstu hæðum. En þessi ríkisstjórn valdi frekar að hækka komugjöldin á heilsugæsluna, skráningargjöld í háskólana og leyfir sér svo að tala um óverulegar fjárhæðir þegar við erum að tala um 1 milljarð í tekjulækkun á þessu ári og 1,8 milljarða á því næsta. Þetta tekjutap þarf að brúa og hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera það? Skera meira niður eða auka álögur á þá sem síst eru aflögufærir? Þegar stórt er spurt.