143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku sótti ég árlega ráðstefnu ungra þingmanna á Norðurlöndum og Norðvestur-Rússlandi. Þessi ráðstefna var haldin í sjötta sinn. Þar voru rædd ýmis mál sem snerta ungt fólk og þau mál sem ungt fólk hefur aðra sýn á. Helst ber þar að nefna menntamál, heilbrigðis- og velferðarmál, umhverfismál sem og framtíðarsýn ungra þingmanna á stjórnmál, stjórnsýslu og framtíðarmöguleika Norðurlanda og Rússlands.

Ég tel að umræðu þeirri sem var um sjónarmið í mannréttindamálum sé ekki hægt að pakka saman í tveggja mínútna ræðu hér, en mig langar að beina sjónum að því sem fram viðkemur Norðurlöndum. Það sem var einkar markvert á ráðstefnunni var hversu mikið Norðurlöndin eru undir sama hatti og það viljum við reyna að nota okkur til góðs, en mörg vandamál sem komið hafa upp sýna að við lítum stundum of mikið á okkur sem eitt samfélag.

Sem dæmi má nefna þá erum við í Norðurlandaráði nú að skoða stjórnsýsluhindranir á milli Norðurlanda, þ.e. þegar lög og reglugerðir landanna rekast á. Flest þessara vandamála koma upp þegar eitthvað óvænt kemur fyrir. Til dæmis snúa flestar hindranir að greiðslum frá tryggingum, úr lífeyrissjóði eða vegna slysa. Hér áður fyrr undirbjó fólk sig betur fyrir flutninga á milli landa og í dag eru samgöngur betri og samvinna meiri svo fólk miklar það ekki fyrir sér að flytja, en þá verða út undan ýmsir pappírar sem hefði þurft að ganga frá til að vera vel búinn undir óvæntar uppákomur. Með því að leysa úr stjórnsýsluhindrunum bætum við oftast og samræmum kerfi okkar til muna og regluleg endurskoðun er nauðsynleg til að vera í takt við þá hröðu þróun sem á sér stað á þessu sviði. Við sjáum þegar við skoðum þau verkefni sem eru í gangi að miklir möguleikar eru í boði fyrir Norðurlöndin en þrátt fyrir að okkur vegni vel þá viljum við alltaf gera betur til að geta talið okkur vera áfram í toppsæti á heimsmælikvarða.