143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Gleðilegt sumar. Það er yfirvofandi verkfall á Keflavíkurflugvelli. Ég vil höfða til skyldu samningsaðila til að semja áður en til verkfalls kemur. Það mun kosta okkur milljarðatap á hverjum degi í gjaldeyristekjum og ekki eingöngu það heldur mun það líka skaða ímynd Íslands og verða álitshnekkur til margra ára. Ferðaþjónustan er í mikilli uppsiglingu og hún má ekki við því að fá bakslag í seglin núna.

Suðurnes eru láglaunasvæði, það hefur okkur ekki dulist. Mesta atvinnuleysið hefur verið á þessu svæði en stærsti vinnustaðurinn er Keflavíkurflugvöllur og hann er líka mikið láglaunasvæði. Það eru borguð lág laun á Keflavíkurflugvelli. Þar er stórt opinbert fyrirtæki, opinbert hlutafélag, sem nýlega skilaði milljarðahagnaði. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til þess að flugvallarstarfsmenn fái það að einhverju leyti til baka.

Ég hef margoft talað um það úr þessum stól áður að atvinnuuppbygging í Helguvík sé mikilvæg til að skapa samkeppni um starfsfólk á Suðurnesjum. Það er afar mikilvægt í því ljósi að það þarf að hækka meðallaun á svæðinu. Þess vegna þurfum við að gefa í. Við þurfum að koma þeim atvinnutækifærum sem bíða í Helguvík í gang. Það er stóra verkefnið á Suðurnesjum en stærsta verkefni dagsins er að koma í veg fyrir verkfall á morgun.