143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að rifja enn og aftur upp og vekja athygli á þeirri stöðu sem nú blasir við og er að raungerast í þremur sjávarbyggðum í kjölfar ákvörðunar fyrirtækisins Vísis að segja upp öllum starfsmönnum sínum, ljúka starfsemi og loka fiskvinnslustöðvum á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri, fara með veiðiheimildirnar þaðan í burtu o.s.frv.

Það mun standa svo á að í dag er síðasti vinnsludagur í fiskiðjuverinu á Húsavík. Fyrirtækið lokar og skellir í lás. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa nú um 40 af starfsmönnum á Húsavík og tæplega 30 af starfsmönnum á Djúpavogi skráð sig á lista fyrirtækisins um að þiggja tilboð um flytjast búferlum frá sínum heimabyggðum til Grindavíkur til að halda vinnu.

Við horfumst í augun við stórkostlegustu hreppaflutninga síðari tíma. Þetta gerir auðvitað aðstæður heimamanna enn þá erfiðari og viðkvæmari en ella hvað varðar mögulegar mótvægisaðgerðir því að fólkið verður einfaldlega farið. Þannig verður staðið að þessari aðgerð.

Ég sakna þess að stjórnvöld skuli ekki hafa látið þetta mál betur til sín taka. Ég hef lítið heyrt frá ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum, satt best að segja, en þessir hlutir eru að gerast og það er lítill tími til stefnu. Hér í salnum situr að vísu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er það vel en það er ekki tími til að hanga yfir þessu máli. Það þarf að koma til móts við óskir heimamanna um mótvægisaðgerðir nú þegar og gera þær opinberar svo að skriða brottflutnings frá stöðunum skelli ekki á.

Ég hef ekki upplýsingar frá Þingeyri en kannski gæti forseti þingsins upplýst okkur um það. Hvað eru margir komnir á hreppaflutningalistann á Þingeyri?

Ég vil bara segja að lokum að mér finnst ekki koma til greina (Forseti hringir.) að Alþingi ljúki störfum hér í vor nema tekist (Forseti hringir.) verði á við þessi mál af einhverjum myndugleik.