143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi hér áðan að hann teldi að leggja þyrfti ýmislegt á sig til að koma framkvæmd í Helguvík af stað. Þá vil ég bara nefna það hér að ég verð alltaf jafn undrandi, nærri ári eftir að þessi ríkisstjórn tók við, sem hélt því fram allt síðasta kjörtímabil að fráfarandi ríkisstjórn væri að stoppa þar framkvæmdir, af hverju í ósköpunum ekkert er búið að gerast á hennar vakt. Kannski er það vegna þess að málið var ekkert svona einfalt. Popúlistarnir í núverandi ríkisstjórnarflokkum fóru of geyst í gagnrýni sinni og málflutningi gegn fráfarandi ríkisstjórn. Ég held að menn ættu bara að segja hlutina eins og þeir eru.

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að í dag er fín dagskrá. Allt gott og blessað með það. Það eru stór og mikil mál á dagskrá. Við ætlum að ræða veiðigjöld sem er grundvallarmál og virðist vera grundvallarágreiningur um í þessum sal þar sem á að fara að lækka veiðigjöld, sem ég tel algerlega af og frá að gera. Við ætlum að ræða breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Við ætlum að ræða breytingu ýmissa laga um tekjuskatt, sem er stórt og flókið mál. Við ætlum að ræða um fjármálafyrirtæki sem er hvorki meira né minna en frumvarp upp á 41 grein. Við ætlum líka að ræða um opinber fjármál, ný heildarlög um rekstur ríkisins frá A til Ö, hvorki meira né minna en sex kaflar og 68 greinar.

Það eru rúmlega tvær vikur eftir af þessu þingi. Öll málin sem ég taldi hér upp eru mikilvæg stórmál. Þau eru hér til 1. umr. Ég skil ekki hvernig þetta þing er rekið. Ég skil ekki hvernig ráðherrarnir fá að koma hingað inn með mál núna. Við hin þurfum að fá svör við því hvernig menn ætli að ná því að klára þetta. (Forseti hringir.) Er verið að gera grín að okkur með því að láta okkur ræða þessi mál vegna þess að (Forseti hringir.) menn geta ekki lokið þeim fyrir þinglok eða eru (Forseti hringir.) menn búnir að ákveða að það verði sumarþing? (Forseti hringir.) Við hljótum að fá svör við því áður en við göngum (Forseti hringir.) til þessarar þungu dagskrár (Forseti hringir.) með málum til 1. umr. tveim vikum fyrir þinglok.