143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 989, sem er 568. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld.

Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur verið unnið að endurskoðun löggjafar um veiðigjöld í sjávarútvegi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Laugarvatnsyfirlýsingunni, segir enn fremur að vilji sé til að efla sátt um framtíðarskipulag sjávarútvegs með því að vinna áfram með tillögur sáttanefndarinnar svonefndu frá september 2010. Í því felst að samningsbundin tímabundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af núverandi úthlutun og að samningar feli í sér rétt til endurnýjunar að uppfylltum nánari skilyrðum. Þessar tillögur sáttanefndarinnar eru raunar af eldri rót en þannig má rifja upp umræður og áþekkar tillögur í álitsgerð svonefndrar auðlindanefndar sem starfaði um aldamótin undir forsæti þeirra Jóhannesar Nordals og Eiríks Tómassonar.

Á 142. löggjafarþingi, sumarþinginu 2013, voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um veiðigjöld með lögum nr. 84/2013. Þær breytingar fólu í sér að efnisákvæði laga um veiðigjöld hvað snertir ákvörðun reiknaðrar rentu á þorskígildiskíló eftir mismunandi flokkum veiða og vinnslu og um álagningu sérstaks veiðigjalds komu ekki til framkvæmdar eins og lögin annars gerðu ráð fyrir. Þess í stað voru veiðigjöld fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2013/2014 fastákveðin sem tiltekin krónutala á þorskígildi í annars vegar botnfiski og hins vegar uppsjávarfiski. Að þessu leyti var reyndar sama aðferð viðhöfð og gilti á fiskveiðiárinu 2012/2013 þegar gjöldin voru ákveðin samkvæmt fyrirmælum í bráðabirgðaákvæði við lögin um veiðigjöld.

Í skýringum með frumvarpinu frá sumarþinginu 2013 segir að með þessu sé „ekki aðeins gefið svigrúm til endurskoðunar laganna á næsta reglulega löggjafarþingi í ljósi stefnumótunar ríkisstjórnarinnar og þeirrar gagnrýni sem hefur að þeim beinst, heldur einnig brugðist við þeim erfiðleikum sem hafa komið í ljós við framkvæmd þeirra“. Þetta var þskj. 15, 15. mál, á 142. löggjafarþingi. Nánari grein er gerð fyrir þessum erfiðleikum í skýringum við frumvarpið og gögnum sem lögð voru fyrir atvinnuveganefnd við þinglega meðferð.

Í raun var staðan sú þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum að eiginleg efnisákvæði laga um veiðigjöld, nr. 74/2012, voru með miklum ágöllum. Lögin voru í reynd óframkvæmanleg. Þannig hefði ekki komið til álagningar veiðigjalda ef ekki hefðu verið sett sérstök lög um álagninguna á sumarþingi 2013.

Það var sæmilega fyrirséð frá ári til árs hver yrði fjárhæð þess veiðigjalds sem tekið var upp árið 2002. Frá gildistöku laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, hefur slíkum fyrirsjáanleika ekki verið til að dreifa. Ég dreg enga dul á það að mjög óheppilegt er að ákvörðun veiðigjalda sé bundin slíkri óvissu að óvíst sé frá ári til árs hversu há gjöldin verða. Það gerir að verkum að fyrirtæki í sjávarútvegi búa við óþolandi óvissu um greiðslubyrði sína og með því um rekstrarumhverfi sitt. Þessi óvissa er meðal annars til þess fallin að letja til fjárfestinga af hálfu sjávarútvegsfyrirtækja og draga úr möguleikum þeirra til að vaxa. Hvaða bóndi mundi til dæmis færa út tún sín eða bæta gripahús ef hann gæti ekki séð lengra en fram á næsta ár ætlaðar tekjur búsins?

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir er liður í heildstæðri endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, sem ætlað er meðal annars að tryggja aukinn fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja.

Tveir hópar hafa unnið að endurskoðuninni. Annars vegar er sérstakur starfshópur sem hefur unnið að tillögum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við samningaleið í anda sáttanefndarinnar eins og áður var nefnt. Hins vegar er veiðigjaldsnefnd samkvæmt 4. gr. laga um veiðigjöld sem hefur unnið í samráði við mig að mótun tillagna um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku í sjávarútvegi. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir byggist á þeirri vinnu en ljóst er að veiðigjöld eru mikilvægur þáttur í útfærslu samningaleiðarinnar.

Því miður tókst ekki að ljúka smíði lagafrumvarps um breytta fiskveiðistjórn tímanlega til að leggja fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi en drög að frumvarpinu eru langt komin. Þá hefur eðli máls samkvæmt ekki heldur gefist færi til að ráðast í það víðtæka samráð sem heitið hefur verið að verði haft við undirbúning frumvarpsins. Í það verður gengið nú.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir hefur að geyma þrjár megintillögur að breytingum:

Í fyrsta lagi er lagt til að veiðigjöld verði ákveðin sem föst krónutala á afla úr sjó á fiskveiðiárinu 2014/2015.

Í öðru lagi er lagt til að veiðigjöldum verði jafnað niður á grundvelli útreiknings á svonefndum afkomustuðlum nytjastofna sem byggjast á reiknaðri framlegð við veiðiúthald úr einstökum stofnum.

Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á fyrirmælum um svonefnt frítekjumark og um tímabundna lækkun veiðigjalda vegna kvótakaupa.

Hvað snertir upphæð veiðigjalda samkvæmt frumvarpinu er rakið í athugasemdum við frumvarpið að byggt er á því að álagningin sé sambærileg þeirri sem ákveðin var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár að teknu tilliti til breytinga á ytri aðstæðum sjávarútvegsins, m.a. lakara verði á mörkuðum.

Á það er bent í þessu sambandi að verðvísitala sjávarafurða hefur lækkað umtalsvert á síðustu missirum. Þá eru horfur á mörkuðum slæmar miðað við síðustu mánuði, m.a. hefur verð lækkað verulega á mjöli og lýsi. Auk þess hefur botnfiskur lækkað, sérstaklega saltfisksafurðir. Þetta gerir að verkum að gert er ráð fyrir að tekjuskattsgreiðslur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja muni lækka milli ára og að hægar gangi við niðurgreiðslu skulda en áður mátti ætla.

Ég geri ráð fyrir því að hv. atvinnuveganefnd muni í vinnu sinni fara sérstaklega yfir þessar horfur. Það er mikið áhyggjuefni þegar markaðir með fisk gefa eftir en lækkunin nú kemur á óvart séð í ljósi þess efnahagsbata sem hefur sýnt sig smám saman í helstu markaðslöndum okkar á árunum eftir fjármálakrísuna 2008. Ég beini því til atvinnuveganefndar að fara vandlega yfir frumvarpið, m.a. þær forsendur um þróun markaða og rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sem frá er greint í athugasemdum við það. Þá vil ég jafnframt upplýsa að ég hef óskað eftir áliti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þessi rekstrarlegu atriði sem ég vona að nefndin geti litið til og haft gagn af í störfum sínum.

Með frumvarpinu er lagt til að heildarfjárhæð veiðigjalda verði ákveðin sem 35% af grunni sem er allur hagnaður, EBT, við veiðar, þ.e. 100% af hagnaði við veiðar og 20% af hagnaði í fiskvinnslu, samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu 2012. Gjaldið er annars vegar reiknað fyrir og lagt á botnfiskstegundir og hins vegar uppsjávarfiskstegundir. Um nánari forsendur og útreikning gjaldsins er fjallað í athugasemdum við frumvarpið.

Með þessu er enn lagt til að veiðigjöld verði reiknuð á grundvelli meðaltalstalna fyrir sjávarútveginn í heild sinni. Sjávarútvegsfyrirtæki sem rekin eru með ólíku rekstrarformi víðs vegar um landið hafa mjög misgóða afkomu. Afkoman hverju sinni fer meðal annars eftir eðli starfsemi hvers og eins, á hvaða markaði er treyst og hvort fyrirtækin hafa getað nýtt kosti samþættingar á veiðum og vinnslu. Í ljósi þessa finnst mér mikilvægt að til framtíðar hugum við að ólíkari nálgun við innheimtu gjaldanna en hingað til. Sú nálgun mun birtast í heildarendurskoðun þeirri sem ég hef hér framar vikið að. Ég vil aðeins fara yfir þá framtíðarmynd þar sem frumvarp þetta leiðir að henni. Við endurskoðunina er unnið samkvæmt því að sá hluti gjaldsins sem nær til allra fyrirtækja, aðgangsgjaldið, verði áfram meðaltalsgjald. Þess verður að gæta að það gjald sé ekki of íþyngjandi fyrir smærri eða viðkvæmari rekstrareiningar. Fjölbreytileikanum í sjávarútvegi þarf að viðhalda.

Við vitum vel að sjávarútvegsfyrirtæki sem njóta stærðar sinnar og hafa getað hagnýtt sér kosti samþættingar á veiðum og vinnslu og jafnvel á fleiri hlekkjum virðiskeðjunnar eiga hægara með að skila betri afkomu en önnur fyrirtæki og jafnvel einnig að ná fram hærra afurðaverði á mörkuðum. Þetta er okkur sem þjóð mjög mikilvægt, enda er sjávarútvegur grundvallaratvinnuvegur Íslendinga.

Þar sem rekstur og stærð okkar íslensku fyrirtækja er svona mismunandi er til framtíðar eðlilegra að stilla meðaltalsgjöldin, aðgangsgjaldið, hóflegra og leitast við að standa vörð um fjölbreyttan sjávarútveg. Gagnvart stærri og afkomubetri fyrirtækjum og gjaldheimtu af þeim ávinningi sem þau hafa umfram önnur sjávarútvegsfyrirtæki er æskilegt að leysa þann hluta með sérstökum skatti á hagnað.

Það er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.“

Þannig sjáum við lengri tíma lausnina fyrir okkur, lausn sem tekur tillit til ólíkra rekstrareininga fremur en þau háu meðaltalsgjöld sem síðustu ár hafa verið lögð á.

Í allri þeirri umræðu sem við í þinginu munum nú eiga um veiðigjöld og almennri umræðu utan þings vil ég biðja fólk um að hafa í huga hversu fjölbreyttur sjávarútvegur á Íslandi er og hversu misvel fyrirtæki af ólíku rekstrarformi standa.

Þó að hér séu um 20 stærri fyrirtæki sem hafa afnot af bróðurparti aflaheimilda er mikilvægt að víkjast ekki undan því að horfa til þeirra 600 annarra fyrirtækja sem eru smærri og oftlega viðkvæmari fyrir gjaldtökunni, fyrirtækja sem rekin eru í dreifðari byggðum landsins og eru í mörgum tilvikum uppistaða atvinnu í þeim. Of hátt meðaltalsgjald getur vegið alvarlega að rekstrarforsendum þeirra.

Af þessum fyrirtækjum hef ég einna helst áhyggjur þó að vissulega séu teikn á lofti um að afkoma allra sjávarútvegsfyrirtækja verði lakari. Við stöndum frammi fyrir því að í áætlunum í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir tilteknum tekjum af veiðigjöldum til næstu ára. Það hefur sýnt sig að þessar áætlanir eru óraunhæfar, eins og ég hef þegar rakið að nokkru.

Við sem að málinu höfum unnið undanfarna mánuði teljum ljóst í ljósi verri rekstrarhorfa í sjávarútvegi að ekki er unnt að standa undir þessum áætlunum. Hér er þó leitast við að tryggja tekjur ríkisins upp í ýtrustu þolmörk að því er við teljum.

Tekjur ríkisins af veiðigjöldum til framtíðar geta ekki markast af áætlunum í ríkisfjármálum, í áætlununum þarf að gera ráð fyrir að tekjur af sjávarútvegi sveiflist með síbreytilegu umhverfi útvegsins.

Samkvæmt forsendum frumvarpsins verður áætluð heildarfjárhæð veiðigjalda um 9.450 millj. kr. að gefnum forsendum um að heildaraflamagn íslenskra skipa á fiskveiðiárinu verði um 515 þús. þorskígildi eða 622 þús. „afkomuígildi þorsks“, svo stuðst sé við þá viðmiðun sem höfð er við niðurjöfnun gjaldanna samkvæmt frumvarpinu. Þetta er auðvitað háð miklum mögulegum sveiflum, t.d. því hvort loðnuvertíðin muni ganga að óskum. Frá þessari áætluðu heildarfjárhæð munu dragast tilteknir frádráttarliðir sem ég mun víkja sérstaklega að á eftir.

Hvað snertir niðurjöfnun veiðigjalda er lagt til að stuðst verði við tillögur veiðigjaldsnefndar um svonefnda afkomustuðla. Afkomustuðlar eru reiknaðir sem hlutfall afkomu reiknaðrar framlegðar við veiðiúthald á hverjum nytjastofni af reiknaðri framlegð við veiðiúthald á þorski. Aðferðin byggist á þeirri forsendu að fyrir liggja mjög nákvæm og ítarleg gögn um úthaldsdaga, aflamagn og aflaverðmæti sem gera útreikningana mögulega.

Allítarlega er fjallað um afkomustuðlana í athugasemdum með frumvarpinu. Rétt er að leggja áherslu á að með þessari aðferð er sá kostnaður sem dreginn er frá tekjum þröngt skilgreindur breytilegur úthaldskostnaður. Því er ekki um útreikning á hefðbundinni framlegð að ræða og alls ekki á heildarhagnaði sjávarútvegs á viðkomandi tímabili.

Með þessu er leitast við að búa til verðmæli sem nýst getur til þess að jafna veiðigjöldum niður með sanngjarnari hætti en nú er gert. Þessi tillaga er afar mikilvæg til framtíðar litið, enda er ljóst að veiðigjöld hafa minni efnahagslega röskun í för með sér eftir því sem þeim er jafnað niður af meiri sanngirni.

Hér vil ég vekja athygli á að frá því að smíði frumvarpsins lauk hefur skráningum á aflaverðmætum fyrir almanaksárið 2013 lokið. Því er nú unnt að reikna þessa afkomustuðla nær okkur í tíma. Ég hef farið þess á leit við veiðigjaldsnefnd að ljúka þeim reikningum þannig að atvinnuveganefnd þingsins geti í umfjöllun sinni um málið horft til þess hvort og þá hvernig stuðlarnir breytast þegar þeir eru færðir nær í tíma.

Í máli mínu hefur þegar komið fram að gert er ráð fyrir því að áætluð heildarfjárhæð veiðigjalda verði um 9.450 millj. kr. að gefnum forsendum um heildaraflamagn íslenskra skipa.

Áætluð álagning á almennu gjaldi er annars vegar 3.715 millj. kr. á botnfiskstegundir og 1.327 millj. kr. á uppsjávartegundir, samtals 5.042 millj. kr. almennt gjald, sem að meginreglu allir greiða sem fá aflaheimildum úthlutað eða landa fiski af Íslandsmiðum.

Sérstakt veiðigjald er áætlað annars vegar 1.735 millj. kr. á botnfiskstegundir og 2.675 millj. kr. á uppsjávartegundir, samtals 4.410 millj. kr. sérstakt veiðigjald.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að svokallað frítekjumark taki nokkrum breytingum. Með 2. mgr. 9. gr. laga um veiðigjöld er mælt fyrir um að fella skuli niður álagningu af fyrstu úthlutun eða lönduðum afla, þ.e. þannig að af fyrstu 30 þús. þorskígildiskílóum greiðist ekkert gjald og af 70 þús. þorskígildiskílóum þar á eftir greiðist hálft gjald. Nauðsynlegt er að breyta þessum ákvæðum þar sem ekki er lagt til að stuðst verði við þorskígildiskíló við álagningu gjaldanna.

Í stað þess er lagt til að miðað verði við fasta krónutölu, sem verði 250 þús. kr., en með því er fjárhæðarverðmæti frítekjumarksins lækkað lítillega frá yfirstandandi fiskveiðiári sem endurspeglar lækkun á áætlaðri heildarfjárhæð veiðigjalda og sérstaklega lækkun á þorskverði. Í heild er áætlað að þessi afsláttur nemi á næsta fiskveiðiári um 150 milljónum en á yfirstandandi fiskveiðiári um 250 milljónum.

Frítekjumarkið leiðir til þess að sérstakt veiðigjald fellur niður hjá fjölda smærri útgerðaraðila sem ég tel æskilegt í ljósi lakari samkeppnisstöðu þeirra. Við verðum að vera tilbúin að viðurkenna að það er ekki sama hagkvæmnin í því að gera út á smáum skala og stórum. Þá þurfum við að viðurkenna að útgerðarmynstur smærri aðilanna er okkur mikilvægt, ekki síst í byggðalegu tilliti, að sjávarútvegur á Íslandi sé fjölbreyttur. Það getur einnig nýst okkur til hagsbóta á mörkuðum að bjóða upp á ólíkar afurðir, veiddar á ólíkan hátt og unnar hjá fyrirtækjum af ólíku rekstrarformi.

Réttur til lækkunar sérstaks veiðigjalds vegna skuldaafsláttar er samkvæmt frumvarpinu áætlaður alls um 1.300 millj. kr. Þessi áætlun er líklega heldur rífleg þar sem sérstakt gjald á botnfisk er talið geta í heild numið um 1.735 millj. kr. Samkvæmt reynslu fyrri ára eru það aðallega botnfisksfyrirtæki sem njóta skuldaafsláttarins en auk þess er með frumvarpinu lagt til að heimilt verði að endurskoða þennan lækkunarrétt hjá einstökum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi þau fengið skuldir felldar niður hjá bankakerfinu frá 1. janúar 2012 að telja. Það verður líka að teljast ósanngjarnt að fyrirtæki njóti skuldaafsláttar vegna afskrifaðra skulda eins og í raun er ekki girt fyrir í gildandi lögum um veiðigjöld frá árinu 2012.

Við nánari athugun ráðuneytisins á síðustu dögum hefur sýnt sig að ætla megi að lækkunin nemi um 1 þús. millj. kr. og hún sé því ofáætluð um um það bil 300 millj. kr. í greinargerð frumvarpsins.

Samkvæmt því má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjöld muni nema um 8,3 milljörðum kr. verði frumvarpið að lögum í stað þess að nema um 8 milljörðum eins og segir í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Við þurfum að lyfta okkur yfir þær þrætukenndu deilur sem hafa staðið um veiðigjöld á undanförnum missirum og ræða þau á málefnalegum grunni. Of langt hefur verið gengið í gjaldtökunni og sneitt nærri fyrirtækjum af tilteknum rekstrarformum. Það er verkefni þingsins að vinna úr þessari aðstöðu samhliða því að finna leið sem tryggir þjóðinni tekjur af afnotum einstakra aðila af sameigninni.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að flest séum við sammála um að þeir sem við treystum til að nýta auðlindina eigi að greiða gjald fyrir aðganginn að henni. Ekki eru allir sammála um hvort skilgreina eigi innheimtuna sem gjald fyrir aðgang eða sem sérstaka rentu. Það hefur sætt gagnrýni hvernig gjöldin dreifast á milli ólíkra útgerðarmynstra. Það hefur verið gagnrýnt hvaða gögn eru til grundvallar útreikningi á gjaldinu. Síðast en ekki síst tökumst við á um hversu hátt gjaldið eigi að vera.

Viðfangsefnið er að vinna úr þessari gagnrýni. Við þurfum að tryggja sameiginlegan skilning á eðli gjaldsins. Við þurfum að koma gagnasöfnun á það form að þær sveiflur sem sannarlega eru í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja birtist sem næst gjaldtökunni í tíma. Síðast en ekki síst þurfum við að ræða á málefnalegum grundvelli um hvernig við tryggjum þjóðinni tekjur af sjávarútvegi til framtíðar.

Eins og fyrr segir er unnið að þessu viðfangsefni í heild í ráðuneyti sjávarútvegsmála. Við erum langt komin með þá lausn sem við hyggjumst ræða við þingið sem framtíðarlausn eins og ég hef að nokkru tæpt á í ræðu minni. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir er liður í þessari vinnu.

Ég vil sérstaklega nefna þann árangur sem hefur tekist við að „jústera“ dreifingu gjaldanna með breyttum hætti. Mikil vinna hefur verið lögð í útreikning afkomustuðla fyrir ólíka nytjastofna.

Framtíðarsýnin er sú að veiðigjaldið sem slíkt einskorðist við að vera gjald fyrir réttinn til aðgangs að veiðum. Sérstakur tekjuskattur á fremur að taka á sérstökum hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja, þeim hagnaði sem allri almennri umræðu stýrir á kostnað þess að á sanngjarnan hátt sé horft til meginþorra sjávarútvegsfyrirtækja í fjölda talið.

Við erum með takmarkaðan aðgang að miðunum á Íslandi og höfum valið að veita einstökum aðilum rétt til að stunda veiðar. Það hefur reynst okkur vel að stýra fiskveiðum með þessum hætti, svo vel að eftir er tekið. Við þurfum að viðhalda orðspori okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð.

Við þurfum að horfa til þeirra nýju tækifæra sem við okkur blasa í sjávarútvegi, tækifæra á sviði líftækni, í tækniþróun og frekari fullvinnslu afurða. Við megum ekki ganga það nærri fyrirtækjum í veiðum og vinnslu, fyrirtækjum sem geta drifið þessa þróun og atvinnusköpun henni tengdri áfram, að þessum tækifærum verði kastað á glæ.

Við þurfum að vera vakandi yfir samkeppnishæfni okkar sjávarútvegs. Hana verðum við að verja og ekki skaða með of háum álögum. Íslenskar sjávarafurðir hafa verið mjög samkeppnisfærar í tímans rás. Við stöndum frammi fyrir samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg samkeppnislanda okkar þar sem framboð er vaxandi og miklu opinberu fé varið í markaðsmál. Hér hafa fyrirtækin sjálf verið drífandi um sitt markaðsstarf.

Í allri umræðunni þurfum við að horfa yfir sviðið allt og spyrja okkur hvernig við byggjum best upp til framtíðar.

Leitast er við horfa til þessara þátta í frumvarpi því sem ég mæli fyrir þótt ekki sé í þessari lotu tekið á öllum álitamálunum. Hér um áfanga að ræða í þeirri vinnu sem í gangi hefur verið í vetur og kynnt verður betur í sumar.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið. Að öðru leyti vísa ég til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.