143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í framhaldi af þessu spyr ég: Þegar þetta var allt skoðað, stuðlarnir voru fundnir út og upphæð gjaldsins á hvern stuðul, var þá geta hverrar tegundar höfð í huga eða voru þarfir ríkissjóðs frekar hafðir í huga? Það skiptir miklu máli. Erum við að horfa á hvað við ætlum að ná miklu út úr þessu eða hvað greinin mun þola á hverjum stað fyrir sig?

Við verðum nefnilega að ná sátt og tryggja að við séum ekki að íþyngja vissum greinum og vissum tegundum of mikið, hvað þá þessari nýsköpun sem hjálpar okkur mikið í þeirri samkeppnishæfni sem við þurfum að byggja á til að við drögumst ekki of mikið aftur úr þeim þjóðum sem eru að færast nær sjávarútvegi okkar í markaðsstarfi og gæðum.