143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get aftur tekið undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að við verjum samkeppnishæfni greinar okkar og samkeppnisþjóðir sem búa jafnvel við ríkisstyrktan sjávarútveg nýta mjög mikla fjármuni, jafnvel opinbera fjármuni, í markaðsstarf sem við höfum ekki gert. Við höfum vísað þessu yfir til sjávarútvegsins á sama hátt og við vísuðum hagræðingunni á sínum tíma til sjávarútvegsins.

Varðandi útreikninginn á gjaldinu er stofninn fundinn á þann hátt sem ég lýsti, tekinn er allur hagnaður úr veiðum og 20% úr vinnslu. Úr því verður ákveðinn stofn. Afkomustuðlarnir eru síðan dreifðir eftir því hverjar tekjur eru af afla upp úr sjó í einstökum tegundum, í hverri einustu veiðiferð og þannig fundinn út afkomustuðull. Gjaldið er auðvitað að einhverju leyti málamiðlun til þess að koma til móts við ríkisfjármálin, eins og ég hef sagt.

Ég tel að það sé gölluð leið og að ekki sé hægt að fara hana áfram eins og verið hefur á síðustu árum.