143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller mundi það hjálpa mikið til við ýmsar útfærslur á þessari gjaldtöku ef skýrari ákvæði væru í tekjuskattslögum en þau heyra, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, undir fjármálaráðuneytið. Ég skal svo sem ekki svara nákvæmlega fyrir það af hverju slíkt er ekki enn komið fram. Þetta er engu að síður sá hluti sem ég sé fyrir mér sem framtíðarlausn, m.a. ef horft er til samningaleiðarinnar, þeirra samninga sem menn munu gera. Menn munu tryggja það með einhverjum hætti að þessar upplýsingar liggi fyrir. Það er auðvitað einfaldasta leiðin að breyta tekjuskattslögunum.

Veiðigjaldsnefndin átti mjög gott samstarf við endurskoðanda, fyrirtæki og ríkisskattstjóra um það hver væri skynsamlegasta leiðin að fara. Ég held að þetta sé ein af þeim leiðum sem sé skynsamlegast að fara og vænti þess að við munum vinna áfram á þeim nótum.