143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annars vegar er grunngjald í gangi, þar sem allir greiða eina krónu jafnvel þó að það sé núll framlegð. Þar er einmitt verið að koma til móts við að það er mismunandi framlegð í mismunandi stofnum, í því liggur þessi afkomustuðlagreining. Ég tel það vera mjög jákvætt.

Það er einmitt gert til að koma til móts við þær tegundir sem ekki skila neinni framlegð í veiðum, eru oftast kannski meðafli, en það er mjög mikilvægur þáttur og áfangi í þessu verkefni til þess að menn séu einmitt ekki að láta alla greiða 9,5 kr. ef það er engin framlegð í þeim veiðum. Þá er miklu skynsamlegra að það sé greitt lágmarksgrunngjald.

Varðandi hitt, að ekkert sé komið til móts við minni sjávar- eða útgerðirnar, þá er það náttúrlega aldeilis fráleitt, því að frítekjumarkið er akkúrat gert til þess. Og ef ég man rétt þá eru milli 360 og 370 smærri útgerðir sem greiða það ekki, nýta frítekjumarkið að fullu, fyrir utan strandveiðar og hrognkelsaveiðar.