143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Seint og um síðir, og því miður allt of seint, er fram komið frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum, þ.e. veiðigjöld sem á að leggja á fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 með svokölluðum afkomustuðlum.

Ég get ekki látið hjá líða að gagnrýna það hversu seint frumvarpið kemur fram og hve lítill tími er ætlaður, bæði í atvinnuveganefnd og á þinginu, til að klára þetta mál miðað við starfsáætlun Alþingis, einir átta þingdagar eru eftir og þrír eða fjórir nefndadagar. Þetta er svo sem ekkert nýtt, þetta gerist allt of oft. Hæstv. núverandi forseti Alþingis óskaði eftir því við setningu Alþingis að ráðuneyti og ráðherrar kæmu með frumvörp fyrr inn en verið hefði en því miður hefur orðið misbrestur á því og það sjáum við núna við störf Alþingis. Það er synd.

Í mínum huga hefur álagning veiðigjalda alltaf verið leið til að freista þess að skapa sem mesta sátt um sjávarútveg á Íslandi. Veiðigjöld eru nú ekkert ný, með lögum nr. 85/2002, í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, var almenna veiðigjaldinu komið á. Og ég er alveg viss um að þá var það líka hugsunin að reyna að skapa meiri sátt. Gott ef gjaldið var ekki fellt út á mestu erfiðleikaárunum 2007, þegar þorskaflaniðurskurður var mikill, en síðan hefur það hækkað.

Forsagan að álagningu veiðigjalda nær aftur til 2002. Síðan var það á síðasta kjörtímabili, í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem hið sérstaka veiðigjald var lagt á og áfram var það gert undir þeim formerkjum að skapa sem mesta sátt um sjávarútveginn, að þjóðin sem eigandi auðlindarinnar fengi sanngjarnan arð af henni, alveg eins og gera á með aðrar auðlindir þessarar þjóðar sem eru almenningseign. Það á í raun ekkert að taka sjávarútveginn einan og sér út eða fjarskiptarásir, vatnið eða jarðhitann, allt á þetta að vera undir.

Það frumvarp sem hér er kýs ég því að líta á sem þróun á þeim ferli að búa til lagaumhverfi og finna sem sanngjörnustu, eðlilegustu og bestu lausnina til að leggja á hóflegt veiðigjald. Þegar ég nefni hóflegt veiðigjald þá finnst mér ekkert slæmt að minna á að allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa ályktað um að leggja skuli á hóflegt veiðigjald í sjávarútvegi, en ágreiningurinn stendur um það hvað sé hóflegt.

Ég sagði það líka síðast, þegar ég starfaði sem formaður atvinnuveganefndar og þurfti að fylgja þessu frumvarpi eftir: Það versta við það var að við vorum með gömul gögn sem komu sem gögn frá Hagstofu. Þau voru notuð sem álagningarstuðull til að leggja á 10, 12 eða 15 milljarða, eða guð má vita hve mikið það er hverju sinni. Það er ekki ásættanlegt, að mínu mati, að gera þetta með svo gömlum gögnum. Við þurfum að komast í raunupplýsingar. Það hefur til dæmis gerst í upphafi þessa árs að Norðmenn hafa veitt mikið af fiski í janúar til apríl, trukkað því niður til Evrópu, sumir segja 350 þús. tonnum á þessum mánuðum, og verðfall hefur orðið miklu meira á mörkuðum, þar með talið á okkar mörkuðum.

Þá er afkoman eðlilega verri þessa mánuði. Að mínu mati á það að koma inn í gögn sem útgerðin skilar til ríkisskattstjóra, sem ég hef alltaf verið hrifnastur af, og álagt veiðigjald lagt á eftir það, hvort sem það er tveimur eða þremur mánuðum síðar, það er úrlausnaratriði hvort það er gert ársfjórðungslega, þrisvar á ári eða hvernig við viljum gera það. Það fer eftir því hvað er hagkvæmast og best fyrir fyrirtækin og hið opinbera, getur farið inn í svipað kerfi og virðisaukaskattsskil, sem eru annan hvern mánuð. Síðan er greitt af því eftir á. Ef afkoman er slæm er lítið greitt, ef afkoma batnar þá er greitt meira. Þetta er sú aðferð sem ég hef talað fyrir og hika ekki við að halda því fram að hún sé sú besta. Mér finnst að það hafi komið fram í svari hæstv. ráðherra hér áðan að þær tillögur sem veiðigjaldsnefnd hafi lagt til um lagabreytingar til handa ríkisskattstjóra, séu á þennan veg. Það skýtur stoðum undir það og ég fagna því að fleiri séu farnir að hugsa þetta út frá þessari leið.

Þetta á því miður ekki bara við um sjávarútveg þegar við erum að nefna svona gögn. Í landinu er heldur ekki hægt að kalla fram frá einni stofnun upplýsingar um skuldir landsmanna, skuldir heimilanna, sama hvort það er vegna íbúðarhúsnæðis, bílakaupa eða annars. Það var ekki hægt að fá þær upplýsingar þegar allt hrundi hér 2008 og fékkst sérstök undanþága frá Persónuvernd til að vinna upp slík gögn fyrir Seðlabankann. En höfum það í huga að það var háð því skilyrði að gögnunum yrði síðan eytt. Það væri betra ef menn hefðu þessar samtíðarupplýsingar í dag.

Hér er farin leið sem líka var talað um síðast að yrði farin og veiðigjaldsnefnd hefur verið að þróa og mér finnst hún vera á hárréttri leið hvað það varðar. En ég geri mér líka grein fyrir að það er töluvert eftir, þ.e. að búa til þá afkomustuðla sem settir eru fram í 5. gr., sem ráðast af reiknaðri framlegð við veiðiúthald á hverjum stofni sem veiðigjaldsnefnd hafði unnið á undanförnum mánuðum í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það er með öðrum orðum verið að reyna að skipta niður hve mikið er fiskað af þorski í ákveðnum túr og hver kostnaðurinn við það sé, hver sé aflahlutdeildin og hver kostnaðurinn, sett svoleiðis fram og þessir reikningsstuðlar færðir út. Þetta er á réttri leið en ég geri mér grein fyrir að töluvert mikið er eftir.

Ég held að þetta sé miklu sanngjarnari leið en að taka þetta út frá þorskígildisstuðlunum sem voru notaðir frá árinu 2002, sem mæla ákveðna þætti. Við þekkjum hvernig það er gert en ekki er þar með sagt að það sé sanngjarnt gagnvart öðrum tegundum.

Virðulegi forseti. Hér í dag er að hefjast enn ein umræða um sjávarútveg og framtíð sjávarútvegs á Íslandi. Það hefur verið boðað að breyting á fiskveiðistjórnarlögum komi ekki fram og má kannski fagna því að það sé unnið betur. Ég kýs að láta þá skoðun í ljós að æskilegt sé að reyna að vinna það í miklu meiri sátt en hægt hefur verið að gera. Við þurfum að ræða um sjávarútveg sem atvinnugrein, hvaða reglur, hvaða lög og hvaða starfsumhverfi við ætlum að skapa þessari höfuðatvinnugrein okkar sem hingað til hefur verið, ef frá er skilinn síðasti ársfjórðungur síðasta árs, þar sem tekjur af ferðamönnum voru meiri en tekjur af sjávarútvegi. Í fyrsta skipti i sögu landsins var sjávarútvegurinn þar ekki á toppnum.

Við þurfum málefnalega umræðu, eins og hæstv. ráðherra var að tala um hér áðan. Já, mikið sannarlega vildi ég óska þess að við gætum haft málefnalega umræðu um framtíð sjávarútvegs og ræddum þá alla þætti hans, þar með talið: Við erum frábær í veiðum, við erum frábær í vinnslu, en ég held að við séum ekkert sérstaklega frábær hvað heildina varðar í markaðsmálum. Og við höfum ekkert að gera með það að vera best í veiðum og vinnslu ef enginn vill kaupa af okkur afurðina á því verði sem við viljum helst fá fyrir hana. Auðvitað viljum við alltaf fá sem mest hvað það varðar, en stundum er gott að ganga hægt um gleðinnar dyr, stundum eru toppar þannig að þeir geta skemmt fyrir og varanleg verðlækkun kemur í framhaldi af því.

Ræðum þetta sem framtíð og ræðum þá líka það sem kannski er mesti ágreiningurinn um, hvernig eigi að leggja veiðigjöld á og hvað þau eigi að vera mikil. Eru 10 milljarðar, rúmlega 5 milljarðar í almenna gjaldið sem, eins og ég sagði áðan, var lagt á 2002 með hækkunum og lækkunum, og sérstaka veiðigjaldið, sem nú er áætlað 4 milljarðar, ef ég man rétt — er það hóflegt veiðigjald miðað við stöðuna í dag? Ég veit það ekki vegna þess að mig vantar nútímagögn. Mig vantar að vita hvað gerðist á síðasta ári, 2013. Ég veit það um flestallar aðrar atvinnugreinar. Þó svo að skattar séu ekki lagðir á fyrr en í október, nóvember, þegar lögaðilar eru búnir að skila, er samt sem áður hægt að ná í þær bestu upplýsingar sem til eru en það þarf að fá þær frá fyrirtækjunum sjálfum. Og það getur vel verið að við eigum að breyta kerfinu á þann veg að lögaðilar skili skattframtölum fyrr en almenningur, en það er öfugt í dag.

Förum líka í gegnum það hvað er að gerast í markaðsmálum. Við vitum að mikið verðfall er í Suður-Evrópu vegna efnahagsþrenginga þar. Það kom niður á lífskjörunum hér á Íslandi. Það ástand sem nú er í Úkraínu og Rússlandi mun líka koma niður á lífskjörum okkar hér á Íslandi, hvað varðar sölu á makríl og kolmunna og uppsjávartegundum. Við vitum ekki nákvæmlega hvað við fáum fyrir vöruna. Norðmenn og Rússar eru líka á hraðferð í að bæta veiðar sínar og vinnslu. Dæmi eru um að farið sé að ráða Íslendinga til þessara landa, með há og góð laun, til að skipuleggja veiðar og vinnslu. Þessar þjóðir fara að koma inn af miklu meiri krafti í samkeppni við okkur en áður var. Horfum til þess vegna þess að þetta skiptir máli.

Þá skiptir máli að horfa til framtíðar. Viljum við hafa sjávarútveg á Íslandi í 40, 50 eða 60 fyrirtækjum? Nei, það vil ég ekki. Ég vil hafa fjölbreytni í sjávarútvegi og þess vegna vil ég ekki taka þátt í að búa til kerfi sem gerir að verkum að menn selji sig út úr greininni og samþjöppun eigi sér stað. Fyrir utan það að ég er líka mjög ósáttur við það, finnst það höfuðgalli fiskveiðistjórnarkerfisins, að menn geti tekið sig til eina kvöldstund, eða komið í einu hádegi, og tilkynnt um stórkostlegar breytingar eins og gerst hefur nú á síðustu missirum sem við erum að ræða um, þ.e. á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Þar hefur komið fram að við séum kannski bara að sjá byrjunina.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nefna staði. Ég hef oft hugsað um ákveðna staði; hvað gerist ef viðkomandi útgerðarmaður hættir, stendur ekki í þessu lengur, selur kvótann og innleysir töluverðan hagnað við sölu aflaheimilda og eftir standa sveitarfélög í rúst? Það er mesti ljóður á núverandi kvótakerfi að þetta skuli vera hægt.

Þess vegna þurfum við að fara í þessa umræðu um veiðigjöldin. Á þeim nokkru mínútum sem ég á eftir ætla ég að segja það um þetta frumvarp að mér finnst nokkrir þættir hér vera til bóta, eins og um afkomustuðlana, en ítreka það aftur sem ég hef sagt: Þetta á eftir að þróa betur.

Þá kem ég að því sem rifrildið stendur alltaf um: Hvað er hóflegt veiðigjald? Eru það 10 milljarðar miðað við stöðuna í dag, miðað við árið 2013? Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég veit það ekki vegna þess að ég veit ekki afkomuna. En það nægir mér ekki að horfa á töluna út frá EBITDA fyrirtækja. EBITDA er allt annað en hagnaður. Þegar menn eru að tala um að sjávarútvegur sé rekinn með 85 milljarða kr. hagnaði árið 2012 þá er það ekki rétt. Það er EBITDA án vaxta, skatta og afskrifta. Horfum neðar á reikninginn. Hver er hagnaðurinn? Og finnum þar sanngjarna tölu.

Í frumvarpinu er sagt að verið sé að leggja 35% veiðigjald á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja, það kemur að vísu fram í umsögn fjármálaráðuneytisins Ég veit ekki hvernig það er, en þetta eru þeir hlutir sem við stöndum frammi fyrir.

Virðulegi forseti. Eins og öllum er kunnugt kem ég úr landsbyggðarkjördæmi þar sem sjávarútvegur er mjög mikilvægur, úr Norðausturkjördæmi. Ég hef séð tölur yfir uppsjávarveiðar þar sem árin 2013 og 2014 eru borin saman. Ég hef séð að lýsisverðið í bandaríkjadölum hefur fallið úr 2.000 dollurum 2013 í 1.300 dollara 2014. Ég hef séð að mjölverð í norskum krónum hefur fallið úr 11.000 kr. tonnið í 9.300 kr. Ég hef séð og veit að gengi bandaríkjadals hefur styrkst um 10%, úr 128 kr. í 115 kr. — þetta er sennilega eitthvert meðaltalsgengi — og norsku krónunnar úr 23 kr. í 18.80 kr. Og ég hef séð að við síðustu breytingu, sem núverandi stjórnarflokkar gerðu á síðasta sumarþingi, hækkaði veiðigjaldið á uppsjávarfiski úr 3 kr. í 6,20 kr. Ég leyfi mér að halda því fram að þessar tölur séu þær tölur sem verða að virka strax inn í útreikninga á veiðigjaldi. Það verður best gert, eins og ég sagði hér í upphafi, með því að byggja á samtímaupplýsingum og gera það eftir skilum fyrirtækja til (Forseti hringir.) ríkisskattstjóra, sem fyrirtækin vinna nánast á hverjum einasta degi, (Forseti hringir.) og skila eftir þeim lögum og reglugerðum sem ríkisskattstjóri setur.