143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni held ég að það sé eiginlega ómögulegt að svara þessari spurningu. Eitt er að pólitískir fulltrúar á Alþingi, 63 alþingismenn, gætu komið sér saman um einhverja ákveðna tölu sem er hóflegt veiðigjald. En hver er svo afkoman af því gagnvart greininni, hver er niðurstaðan af rekstrinum? Hvað hefur gerst í rekstrarumhverfi fyrirtækja á árinu sem við leggjum það fram?

Þess vegna held ég að best sé að gera það miðað við samtímaupplýsingar dags dato, bara eftir deginum og hvernig landað er afla. Það má taka sem dæmi: Skip kemur að landi með afla sem gefur 25 milljónir í þessum mánuði, en sama magn af afla gefur ekki nema 12 milljónir í næsta mánuði. Þá verður þetta að virka strax. En ég er ekki að gefa því falleinkunn sem hv. þingmaður talaði um áðan, veiðigjaldafrumvarpinu sem varð að lögum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var erfitt en það var nauðsynlegt að koma því á, það var ágreiningur um það og skiptar skoðanir um hvað væri hóflegt og hvernig þetta ætti að vera. Niðurstaðan varð sú að leggja á krónutölu á fyrsta árinu, sem ég held að hafi verið mjög góð leið. Sú leið var svo tekin upp af núverandi ríkisstjórn, hún var ekki verri en það, að nota krónutöluna en menn fóru að færa uppsjávarfisk og botnfisk á milli.

Gundvallaratriðið er að mínu mati að gera þetta út frá samtímaupplýsingum. Þá mælist strax afkoma í því sem öllu ræður hjá okkur: Hvað fæst fyrir þann fisk sem við veiðum á okkar frábæra hátt með veiðum og vinnslu, útflutningi og öllu því? Hver vill kaupa það og á hvaða verði? Um það snýst þetta. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Útgerðin á að borga sanngjarnt, (Forseti hringir.) hóflegt veiðigjald til eigenda greinarinnar á hverju ári.