143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, en hún var dálítið í anda Sovétríkjanna. (Gripið fram í: Í anda …?) Sovétríkjanna. Það átti að stjórna öllu ofan frá. Það átti að ákveða allt saman af grænu skrifborðunum og helst átti að skerpa á framtölum fyrirtækja þannig að þau skiluðu framtölum einu sinni í mánuði svo að upplýsingarnar bærust strax til stjórnmálamanna og þeir gætu tekið ákvarðanir.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Þekkir hann ekki fyrirbæri sem heitir markaður þar sem verð er ákveðið á markaði? Þar sem verð á olíu, brauði, eplum er ákveðið á markaði? Hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki nota það í þessum stóra geira að hafa markað og þá markað með veiðileyfi, markað með einstaka fisktegundir o.s.frv.? Hvers vegna skyldi markaður ekki virka á Íslandi í þessari grein, einu landa í heiminum liggur við? Ég undanskil lönd eins og Norður-Kóreu og því um líkt. En hvers vegna skyldu menn vera svona fastir í því að fá veiðiupplýsingar og svo eiga stjórnmálamenn og embættismenn að taka ákvarðanir um það hvað sé sanngjarnt og hóflegt veiðigjald o.s.frv.? Af hverju ætti það ekki bara að vera markaðurinn?