143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta andsvar. Mér hefur oft verið skemmt þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur þátt í umræðum um sjávarútvegsmál og kvóta vegna þess að hann hefur flutt tillögu um að allir Íslendingar fái kvótabréf og það gangi kaupum og sölum. Hann hefur verið einn um það en hann vill taka þetta meira á markað.

Ég þekki marga, þar á meðal flokksfélaga mína, sem vilja fara þá leið að markaðurinn sjái um þetta og ég spyr hvers vegna hv. þingmaður hefur ekki komið því til leiðar í gegnum sinn flokk að markaðsvæðingin sé tekin meira upp.

Mér þótti verra þegar hv. þingmaður vísaði til ræðu minnar og þess að hún hafi verið í anda Sovétríkjanna, það þykir mér heldur verra. Ég vil snúa því við og segja að hv. þingmaður hefur setið lengi á Alþingi og meðal annars tekið þátt í að búa til kerfi, sem getur vel verið að sé í anda Sovétríkjanna, sem er þannig að allir aðilar leggja fram fullt af gögnum til ríkisvaldsins, Íslands, ekki Sovétríkjanna, til stjórnmálamanna sem sitja á Alþingi og taka og setja lög fyrir hönd lýðræðisríkisins o.s.frv. Þetta er virðisaukaskattskerfið þar sem alltaf er verið að kalla eftir gögnum frá almenningi í landinu til að leggja á virðisaukaskatt. Þetta sama á í raun við um launatekjur manna. Hv. þingmaður hefur setið lengur á Alþingi en ég og hefur þar af leiðandi lengur tekið þátt í því að setja lög, m.a. svona lög sem kalla eftir öllum gögnum frá þegnum lýðveldisins Íslands til stjórnvaldsins svo að alþingismenn, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal, geti tekið ákvörðun á Alþingi um að leggja skatt á viðkomandi til ríkisins.