143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller ræðuna. Ég er um margt sammála honum. Ég er sammála honum í því að ég hefði viljað sjá þetta frumvarp fyrr en við því er ekkert að gera og ég treysti á að við vinnum þetta fljótt og örugglega.

Hv. þingmaður nefndi að leggja mætti auðlindaskatt á fleiri auðlindir. Ég hefði viljað heyra hann nefna einhverjar auðlindir og bið hann um að nefna nokkrar því að ég tek undir það að ég sakna þess að eingöngu sé talað um sjávarútveginn þegar verið er að tala um auðlindaskatt.

Hv. þingmaður vill hafa fjölbreytni í útgerð og ekki fá og stór fyrirtæki. Ég tek undir það með honum. En hvað er hóflegt veiðigjald? 35% af hreinum hagnaði? Það er ekki verið að tala um EBITDA þar. Hv. þingmaður svaraði því ekki alveg hvað honum þætti eðlilegt í því máli. Ég ítreka þá spurningu. 35% af öllum hagnaði, hvað finnst honum um það? Vill hann hafa það hærra? Vill hann taka helminginn af öllum hagnaði eða finnst honum það kannski of hátt?