143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þó að það sé hreint smámál er það held ég sannleikans vegna rétt að gera athugasemdir við orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan um að að minnsta kosti sá sem hér talar hafi einhvern tímann talið að hægt væri að taka 100 milljarða í leigugjald af makríl. Ég kannast ekki við slíkt. Hitt gæti verið skýring að menn léku sér að því að reikna út hvert kynni að vera heildarverðmæti makrílveiðiheimilda ef makríll yrði færður inn í hlutdeildarkerfið og menn litu á framtíðarverðmæti miðað við gangverð á kvótum. Það er allt annar hlutur.

Auðvitað er borin von að elta ólar við málflutning hv. þm. Jóns Gunnarssonar og leiðrétta alla þá vitleysu sem þar kemur fram en ég vil að minnsta kosti slá þennan varnagla við því að menn gleypi það hrátt sem hann var að tala um áðan.

Það er vissulega nokkur ágalli á þessu frumvarpi að það er seint fram komið og við höfum beðið eftir því í allan vetur í raun og veru að eitthvað kæmi frá hæstv. ríkisstjórn í kjölfar nokkuð sverra yfirlýsinga hér í júnímánuði sl. að þess væri stutt að bíða að fram kæmu tillögur nýrrar ríkisstjórnar um framtíðarskipan bæði veiðigjalda og fiskveiðistjórnar.

Nú er ljóst að af hvorugu verður og hér kemur bráðabirgðaráðstöfun varðandi veiðigjöldin. Engu að síður skiptir máli í hvaða átt er þar farið. Ég verð að segja alveg eins og er að það sem mér sýnist vera alvarlegast varðandi hugmyndafræðilegt fráhvarf frá gildandi lögum og mótsetningin sem kemur upp með því að taka þessi ákvæði og bráðabirgðaákvæði inn í gildandi lög er að það er í raun verið að hverfa frá hugmyndafræðinni um að afmarka auðlindarentu eða viðbótarhagnað og gera hann að andlagi greiðslna útgerðarinnar í formi sérstaks veiðigjalds. Það er verið að því og það þýðir ekkert að reyna að dulbúa það í einhverju orðagjálfri í greinargerð.

Hugmyndafræðin sem byggir á því að um sameiginlega auðlind þjóðarinnar sé að ræða sem við hagstæð skilyrði, verðmæt sem hún er, myndi mikla viðbótarframlegð, viðbótarhagnað og þá eigi eigandi auðlindarinnar, þjóðin, tvímælalaust rétt á tilkalli til þess að fá drjúga hlutdeild í þeirri viðbótarverðmætamyndun, er á undanhaldi. Sú hugmyndafræði er á útleið í þessu frumvarpi og það veit ekki á gott varðandi framhaldið.

Mér býður svo í grun að menn viti alveg hvað þeir eru að gera á ákveðnum bæjum, að taka í skrefum leiðina út úr þessari hugmyndafræði þangað til hún er dauð og að engu orðin. Það er alvarlegt mál og um það ætti að vera grundvallarpólitískur ágreiningur og umræður hér á þingi.

Þessi EBT-hagnaðarnálgun sem maður þarf auðvitað að komast í forsendurnar fyrir, ef einhverjar eru, því að greinargerð frumvarpsins er mjög fátækleg þegar reynt er að finna tölulegan rökstuðning fyrir til dæmis ákvörðun heildarveiðigjaldanna, þá er horft til bráðabirgðaráðstafana í júní í fyrra og sagt: Vegna þess að afkoman hefur nokkuð versnað síðan förum við hingað niður. Ekki eru það mikil vísindi.

Ég sakna mjög haldbetri talnalegra gagna til þess að átta mig á því hvernig menn eru þá að nálgast þessa hugmyndafræði. Ef það er ekki þannig að við ætlum að taka tekjurnar sem veiðarnar gefa, og vinnslan, og við ætlum að draga frá allan rekstrarkostnað og við ætlum að draga frá afskriftir og við ætlum að áætla ríflega ávöxtun á eigið fé greinarinnar — hvað er það þá sem menn ætla að nota? Ætla menn kannski að nota EBT-hagnaðaraðferð sem er þannig að menn taki eingöngu tekjurnar af veiðunum en leyfi mönnum að draga frá allan fjármagnskostnað og afskriftir, þar á meðal vegna fjármuna sjávarútvegsins sem hafa ekkert með sjávarútveg að gera, en þannig er efnahagur fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja samansettur að þau eiga talsverðar eignir í efnahagsreikningi sínum, peningalegar eignir, skuldabréf, hlutabréf o.s.frv. í öðrum rekstri.

Eiga þeir að fá að draga fjármagnskostnaðinn af því frá en ekki telja neinar tekjur af þeim eignum inn á móti? Það skyldi nú ekki vera að gamla Deloitte-aðferðafræðin væri að læðast aftan að okkur aftur.

Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að ég hef engar forsendur fyrir þessu séð, enda hafa þær ekki verið reiddar fram. Ég sé hins vegar hitt, að tölurnar eru mjög sláandi, t.d. um hina ríkulegu lækkun veiðigjalds. Tökum bara þorskinn sem dæmi, og nú geta menn að sjálfsögðu deilt um það hvort hann eins og hann var lagður á miðað við fiskveiðiárið 2012/2013, auðvitað í ljósi þeirrar gríðargóðu afkomu sem menn höfðu þá nýjar upplýsingar um úr sjávarútveginum, metárin 2011 og 2012, upp á 32,70 kr. samtals, almennt og sérstakt veiðigjald. Hvert fór það í júní, í sumargjöfinni handa útgerðinni? Það fór niður í 16,88. Og hvert er það að fara núna? Niður í 11,74. Veiðigjöld samtals á þorsk eru komin niður í 11,74 kr. Það er engin smálækkun. (PJP: 13,62.) Hvar sérðu það? (PJP: Þetta er á sjó …) (Gripið fram í.) (PJP: Þú ert að miða við …) Já, auðvitað, ég er að tala um það. (PJP: Þú ert að miða við …) (JónG: … bera saman … tölur … ) Jæja, við skulum bara fara betur yfir það. Svona er þetta ef við notum þær tölur sem notaðar eru í frumvarpinu, í töflu þess. (Gripið fram í.) Já, já. (Gripið fram í.) Þótt það séu 13, gott og vel. (Forseti hringir.) Það er þá ekki mikill munur.

(Forseti (ValG): Ekki samtöl í þingsalnum. Ræðumaður hefur orðið.)

Þetta segir mér að það þurfa þá að hafa gerst mikil ósköp í afkomu greinarinnar ef þessi lækkun er öllsömul vel undirbyggð miðað við hana eins og hún var árið 2012 og þó að við reynum að áætla hve mikið hún hefur versnað síðan. Eru efni til þess að fara með veiðigjaldið á þorsk næstum niður í þriðjung, langleiðina niður í þriðjung af því sem það var? Það er vel í lagt í lækkun, verð ég að segja.

Rökin sem gjarnan koma hér fram, af því að þau eru ekki mikið talnaleg, eru að menn hafa áhyggjur af litlu og meðalstóru útgerðunum. Bíddu, en af hverju er þá ekki tekið á því sérstaklega? Af hverju er þá ekki frítekjumarkið hækkað? Það er ekki verið að gera það hér. Nei, nei. Litlu útgerðirnar og umhyggja manna fyrir þeim og áhyggjur af samþjöppun í greininni eru notaðar til almennrar lækkunar á alla. Auðvitað stenst það ekki að það sé það sem aðallega vekur áhyggjur manna. Það er annað þarna á ferðinni. Það er handhægt að grípa til þess, menn hafa samúð með litlu fyrirtækjunum og gera jafnvel út á áhyggjur í minni sjávarbyggðum sem eru nú að fá að kynnast kerfinu örlítið þessa dagana. Ekki er víst að við höfum séð allt af því sem þar er í vændum.

Það hefur ósköp lítið með veiðigjöld að gera, satt best að segja, a.m.k. í því tilviki sem umtalaðast er þessa dagana, þökk sé afsláttarliðunum í kerfinu.

Framlegð sjávarútvegsins á árinu 2012 reyndist rúmir 80 milljarðar kr., reyndar um 80 milljarðar eftir þau veiðigjöld sem greinin greiddi á því ári. Hún þarf að hafa hrunið ansi hressilega til að það stofni efni til lækkunar af þessu tagi. Höfum við séð það? Já, við höfum auðvitað séð verðvísitölu sjávarútvegsins lækka, því miður, en engin ósköp. Það hefði að sjálfsögðu þýtt að í óbreyttu veiðigjaldakerfi laganna hefðu veiðigjöldin lækkað. Sérstaka veiðigjaldið er að sjálfsögðu mjög næmt fyrir verðvísitölunni eins og hún er framreiknuð og færð eins nærri núinu og hægt er í lögunum áður en ákvörðun er tekin, þannig að það hefði leitt til lækkunar veiðigjaldanna en ekkert í líkingu við þetta þótt menn hefðu látið verðvísitöluna vega þar inn að fullu.

Menn segja að það hafi lækkað verðið á mjöli og lýsi. Já, það hefur lækkað, en frá hverju? Frá hæsta verði, sem að minnsta kosti ég hef séð, og hef þó fylgst með þessu í 30 ár, í erlendri mynt plús það að íslenska krónan er langt undir jafnvægisgengi. Auðvitað hefur það lækkað en það var í mestu himinhæðum sem við höfum nokkurn tímann séð fyrir ári eða einu og hálfu ári, bæði mjöl og lýsi. Menn segja að það hafi verið erfiðleikar í saltfiskinum. Já, það fór að bera á þeim strax á árinu 2012 og í fyrra en það stöðvaðist sem betur fer á síðari hluta síðasta árs og samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá framleiðendum sem hafa verið að setja frá sér á síðustu vikum er verðið um 10–12% upp og gengur ágætlega að losna við þannig að birgðahaldið hefur meira að segja orðið léttara á nýjan leik hjá fyrirtækjunum. Saltfisksverðið er farið að koma til baka, sem betur fer.

Ég sé ekki alveg að rökin verði sótt með því, enda er ekki reynt að útskýra þetta talnalega eða undirbyggja talnalega með gögnum. Það er fullyrt að afkoman hafi versnað og það gefi tilefni til þess að koma með ábót á lækkunina frá því í júní sl.

Ef við lítum aðeins á tekjuhliðina mat skrifstofa fjármálaráðuneytisins það þannig að lækkunin í júní þýddi 3,2 milljarða tekjutap frá því sem áætlað hafði verið í fjárlögum og gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun á árinu 2013 og 6,4 milljarða tekjutapi á árinu 2014. Nú á að bæta milljarði í þetta tekjutap á árinu 2014, það eru þá orðnir 7,4 milljarðar niður í tekjum af veiðigjaldi á þessu ári. Og ef við gefum okkur að miðað við að halda sjó á árinu 2015 bætist þá 1,8 milljarðar við þessa 6,4 þá eru það 8,2. 8,2 niður í tekjum miðað við að halda sjó.

Ef við leggjum svo þá 3,2 milljarða sem hafa þá farið fyrir borð í fyrra hér við er tekjufallið miðað við gögn fjármálaráðuneytisins á þessum þremur árum orðið 18,8 milljarðar kr., aðeins miðað við að halda sjó. Það er nú farið að muna eitthvað um það. Annars kemur hæstv. fjármálaráðherra hér og menntamálaráðherra og segja að það sé ekkert mál þótt það detti út 2–3 milljarðar í veiðigjöldum. Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Hallalaus fjárlög, hvað? En það þarf að reyta nokkrar milljónir hér og þar af sjúklingum og nemendum. Það hlýtur að fara að muna um 18,8 milljarða á þremur árum.

Og þegar við bætist upp undir 10 milljarða tekjutap, vegna þess að auðlegðarskattur verður borgaður í síðasta sinn í ár, vegna þess að menn hættu við að hafa eðlilegra virðisaukaskattsstig á ferðaþjónustu, vegna þess að menn lækkuðu miðþrepið um 5 milljarða o.s.frv., hefur þessi ríkisstjórn einhvern annan talnaskilning en ég ef það munar ekkert um það í glímunni við ríkisfjármálin að vera augljóslega að missa fyrir borð á milli 25 og 30 milljarða kr. af tekjum sem gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma síðast þegar hún sást á borðum Alþingis.

Þessi ríkisstjórn hefur enga slíka áætlun birt, enda hefur hún engar áhyggjur af þessu.

Þetta er mikið tekjutap og hlýtur að valda þeim sem nálgast þessa hluti ábyrgt áhyggjum. Það á að minnsta kosti við um mig. Ég hef því miður enga trú á því að aðrir hlutir séu að þróast með svo gríðarlega jákvæðum hætti í okkar þágu að þeir mæti þessu. Ég fæ ekki betur séð en að það verði grenjandi erfiðleikar við að koma saman hallalausum fjárlögum fyrir næsta ár. Útlit fyrir 2015 og 2016 er sótsvart. Það sýndu framreikningar fjármálaráðherra sjálfs hér í haust sem leið. Þeir eru að versna vegna þess að ríkið er enn að missa frá sér tekjur.

Eru þessi veiðigjöld ósanngjörn? Menn tala mikið um sanngirnina hér og að það þurfi að ná sáttum. Við hverja? Við þjóðina eða kannski við útgerðina? Er það hún sem á að skilgreina hvað er sanngjarnt fyrir aðgang sinn að auðlindinni? Það heyrðist mér. Og ríkisstjórnin er greinilega á þeirri vegferð að ná fyrst og fremst sáttum við útgerðina en ekki sjálfa sig, ekki ríkissjóð, ekki skattgreiðendur framtíðarinnar eða þjóðina í landinu.

Prófum að nálgast það hvað séu hófleg veiðigjöld út frá einhverri allt annarri átt. Það verður ekki séð í viðskiptum með varanlegar veiðiheimildir, aflahlutdeild, eins og þau hafa gengið fyrir sig á markaði undanfarna mánuði að menn telji ekki talsvert verðmæti enn fólgið í aðganginum að auðlindinni. Er ekki verðið um 2.200–2.400 kr. á kílóið á varanlegum veiðiheimildum í þorski? Jú, ég held það. Voru ekki greiddir einir 8 milljarðar kr. fyrir veiðiheimildirnar í Stálskipum? Hvert fara þeir peningar? Þeir fara til þeirra sem höfðu fengið aðgang að auðlind þjóðarinnar.

Önnur fyrirtæki í sjávarútvegi skuldsetja sig á móti og með EBT-hagnaðaraðferðinni dregst það svo frá stofni veiðigjalds á komandi tímum.

12 kr. veiðigjald, eða þótt það væri 13, og deilum þessum 2.200–2.400 kr. á kílóið sem menn telja þennan aðgang vera virði upp í það, þá hefði veiðigjaldið orðið innan við 5% af því, árlega, sem menn telja hægt að borga fyrir aðganginn. Er það mjög hátt?

Þegar sjávarútvegurinn talar sjálfur (Forseti hringir.) í gegnum viðskipti, innbyrðis, segir hann aðra sögu en grátkórinn syngur með aðstoð endurskoðunarfyrirtækja þegar menn eru að koma sér undan því að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í arðinum af auðlindinni.