143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér lítil breyting að hlusta á málflutning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur ekkert lært, svo mikið er víst. Hér heyrðum við bara sönginn um að óhætt sé að skattleggja þetta undir drep, verið væri að gefa alveg stórkostlega afslætti af þeim skatttekjum sem við gætum sótt í íslenskan sjávarútveg.

Það er ágætt að sú spurning komi fram, vegna þess að þingmaðurinn tók undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem sagði í umræðum áðan að skoða ætti þetta út frá þörfum ríkissjóðs en ekki stöðu greinarinnar, hvort hv. þingmaður sé sammála því.

Á tímabili hans í síðustu ríkisstjórn hafa sennilega verið greiddir um 80–90 milljarðar í atvinnuleysisbætur í landinu. Ætli það væri ekki nær að hafa öflug fyrirtæki til að skapa þó þessu fólki atvinnu? Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þessa árs 2012 þar sem skattstofninn hefur væntanlega verið, tekjuskattsstofninn, einhvers staðar í kringum 47–48 milljarða í þessu 85–100 milljarða umhverfi sem alltaf er talað um, hvort hann telji eðlilegt að veiðigjöldin væru þá til viðbótar því 18 milljarðar, til viðbótar þessum skatti.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann varðandi það sem hefur komið fram í umræðunni, hvort hann sé sammála því, út frá þeim forsendum sem þó liggja fyrir, sem er þó mikil vinna á bak við og miklu betri upplýsingar en við höfum nokkru sinni haft í þessu máli, og telji eðlilegt að leggja viðbótarveiðigjöld á þá sem veiða makríl og á veiðar úr makrílstofninum og þá helst hversu mikið hann telji að það eigi að vera.

Ég vil líka spyrja hann að því hvort hann sé sammála því að lækka veiðigjöldin á kolmunna og fella þau niður á rækju eins og gert er ráð fyrir í svokölluðu rækjufrumvarpi.