143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú skal ég játa að ég hef ekki komist til þess að reyna að nálgast það með framreikningi hver hefðu orðið líkleg veiðigjöld að teknu tilliti til lækkaðrar verðvísitölu sjávarútvegs o.s.frv. miðað við eldri formúlu sem búið er að aftengja núna eða á að aftengja enn einu sinni. Mér býður í grun að þær hefðu jafnvel orðið lægri en sú tala sem hv. þingmaður nefnir. Þannig var það alltaf hugsað.

Það er kannski hvað best að skoða þetta með því að taka afkomu sjávarútvegsins, til dæmis síðustu tíu árin, og keyra hana inn í veiðigjaldaformúluna samkvæmt lögunum eins og hún er. Þá kemur í ljós að mörg óhagstæðustu rekstrarár sjávarútvegsins þurrkast sérstaka veiðigjaldið út með öllu. Svo næm er formúlan á raunverulega afkomu eða viðbótarhagnað greinarinnar.

Það er alveg ljóst að ef þessar fréttir, sem ég hef hvergi séð rökstuddar, að framlegðin sé að minnka um 20–30%, eru réttar hefði það veruleg áhrif á sérstaka veiðigjaldið, samkvæmt gildandi lögum, til lækkunar. Það er alveg ljóst.

Ég tel að það geti vel komið til greina, og væri fróðlegt að sjá hvað markaðurinn sjálfur segði um það, að menn mættu að einhverju leyti til dæmis keppa um veiðiheimildir í makríl á uppboði. Ég hef ekki verið mikill talsmaður þess en miðað við það hvernig þetta heldur endalaust áfram, með áróðurinn og grátinn í þessum málum, vantar bara ekki orðið mikið upp á það, þótt ég sé enginn sérstakur markaðssinni, að ég fari að velta fyrir mér hvort kannski ætti að láta menn bara keppa um þetta á uppboði. Þá kæmi óhlutdræg mæling á það, skulum við ætla, hvers virði þessi aðgangur er sem menn vilja hafa fyrir ekki neitt og helst selja öðrum og stórgræða á því.

Já, það eru rök fyrir því að endurskoða eða lækka veiðigjöldin á rækju. Það er alveg ljóst að afkoman er þar mjög léleg og að einhverju leyti hefur sóknin í kolmunnann orðið dýrari. Menn hafa sótt langt, á mjög stórum skipum að vísu, og olíuverðið er nokkuð hátt þannig að vissar (Forseti hringir.) vísbendingar eru um að framlegðin út úr makrílnum sé frekar döpur. En á móti kemur að nánast öll fyrirtæki sem veiða makríl njóta líka góðs af því að hafa veiðiheimildir í síld, kolmunna, loðnu o.s.frv.