143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst mjög góð. Hv. þingmaður talar af mikilli þekkingu um þessi mál og þegar við förum yfir þau skiptir miklu máli að hafa slíka þekkingu í þingsal. Ég þakka fyrir hana.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í grein sem hæstv. sjávarútvegsráðherra skrifaði í Fréttablaðið í dag þar sem hann ræðir það hvernig hann sér fyrir sér gjaldið þróast. Ég skil greinina þannig að hún sé upptaktur fyrir það sem koma skal varðandi breytingu á veiðigjöldum í haust. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talar um að í fyrsta lagi eigi að vera aðgangsgjald og síðan komi sérstakur tekjuskattur sem sé miðaður við hagnað einstakra fyrirtækja.

Nú vitum við auðvitað ekki hvernig þetta er hugsað í hlutfalli o.s.frv., það mun koma frekar í ljós, en mig langar að spyrja hv. þingmann út í þessa hugmyndafræði, hvort hann telji ekki að þarna komi hvatar inn, t.d. hjá útgerðinni, til að færa hagnaðarmyndun yfir í fiskvinnslu. Það kæmi niður á kjörum sjómanna svo dæmi sé tekið. Hvernig á að tryggja að fyrirtækin greiddu í raun það veiðigjald sem væri reiknað út frá tekjuskatti og miðað við hagnað einstakra fyrirtækja, og að fyrirtækin með flinkustu endurskoðendurna og færustu skattsérfræðingana slyppu ekki frá því að greiða gjald? Það er auðvitað réttlætismál að sanngjarnt gjald sé greitt af auðlindum þjóðarinnar.